Leyfi til raforkuvinnslu á Nesjavöllum
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 12/1997
Í dag, mánudaginn 16. júní, gaf Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, út leyfi til Hitaveitu Reykjavíkur til að reisa og reka jarðvarmavirkjun á Nesjavöllum, til raforkuvinnslu með allt að 60 MW afli. Leyfið er háð fyrirvara um að rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. vegna álvers á Grundartanga hafi öðlast endanlegt gildi og samrekstrarsamningur milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Reykjavíkur liggi fyrir.
Með bréfi dags. 17. febrúar síðastliðinn óskaði Hitaveita Reykjavíkur eftir leyfi iðnaðarráðherra til að reisa og reka raforkuver á Nesjavöllum og óskaði ráðherra þá eftir umsögn Orkustofnunar. Í ítarlegri umsögn stofnunarinnar dags. 17. apríl er mælt með því að ráðherra veiti leyfið með ákveðnum skilyrðum.
Samhliða útgáfu leyfisins hafa iðnaðarráðuneyti og Hitaveita Reykjavíkur í dag undirritað sameiginlegt minnisblað þar sem eftirfarandi er staðfest:
- Gerð verði forðafræðileg úttekt á jarðhitakerfinu á Nesjavöllum, áður en raforkuvinnsla hefst, haustið 1998.
- Árlega verði unninn samanburður á rauntölum og spám og ef svo virðist sem óeðlilega hratt gangi á jarðhitaforðann skal Hitaveitan gera grein fyrir þeim aðgerðum sem hún hyggst grípa til.
- Verði breytingar á skipan raforkumála í landinu, s.s. ef skilið verður á milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu rafmagns til að koma á samkeppni í raforkuvinnslu og -sölu, mun sala á rafmagni sem Hitaveitan vinnur á Nesjavöllum fara eftir þeim reglum að öðru leyti en því, sem kveðið er á um í árituðum drögum að samningi milli Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar vegna sölu á rafmagni til Norðuráls hf.