Hoppa yfir valmynd
18. júní 1997 Utanríkisráðuneytið

CITES-ráðstefnan í Harare

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr.059

Undanfarna daga hafa aðildarríki CITES sáttmálans, sem fjallar um viðskipti með dýr og plöntur í útrýmingarhættu, haldið 10. ráðstefnu sína í Afríkuríkinu Zimbabwe. Fjallað er um megin viðfangsefni ráðstefnunnar í tveimur undirnefndum, þar sem öll aðildarríki eiga fulltrúa. Fyrir fundinum lágu 75 tillögur frá þjóðum heims um takmarkanir á viðskiptum með tegundir sem eru taldar í hættu, en einnig tillögur um tilslakanir á viðskiptatakmörkunum varðandi tegundir þar sem sérstakra takmarkana er ekki lengur talin þörf. Einnig var til umfjöllunar nokkur fjöldi tillagna sem varða skipulag CITES og framkvæmd samningsins.

Þótt Ísland sé ekki aðili að CITES (fjöldi aðildarríkja 136) og hafi ekki atkvæðisréttt, tók íslenska sendinefndin sem skipuð var fulltrúum frá utanríkis-, umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyti virkan þátt í störfum ráðstefnunnar með málflutningi, einkum hvað varðar tvö mál sem sérstaklega varða hagsmuni Íslands.

Á föstudag lauk í undirnefnd umfjöllun um annað þessara hagsmunamála Íslands sem snertir umfjöllun CITES um fiskistofna. Fyrir fundinum lá tillaga um að stofna sérstakan starfshóp um það með hvaða hætti fjalla beri um viðskiptatakmarkanir hvað varðar fiskistofna. Ísland beitti sér mjög gegn þessari tillögu og benti á að CITES hefði ekki yfir að ráða þekkingu eða skipulagi til að fást við mál er varða fiskveiðistjórnun, enda væru fyrir hendi svæðisbundnar fiskveiðistofnanir sem betur væru í stakk búnar til þess. Jafnframt skorti mikið á að CITES setti í öndvegi sjónarmið er varða sjálfbæra nýtingu allra lifandi náttúruauðlinda. Tillaga þessi var felld í undirnefndinni með 50 atkvæðum gegn 49. Ólíklegt er talið að mál þetta komi til frekari umræðu eða atkvæðagreiðslu að þessu sinni enda þarf samþykki 2/3 hluta þátttakenda til þess að endurupptaka mál í aðalnefnd sem felld hafa verið í undirnefndum.



Í dag var fjallað um tillögu Norðmanna að breyttri flokkun tveggja hrefnustofna, þ.e. hrefnustofnsins við Grænland, Ísland og Jan Mayen annars vegar og við Noreg hins vegar. Tillagan gerði ráð fyrir að stofnar þessir yrðu færðir af lista yfir tegundir í útrýmingarhættu yfir á lista yfir tegundir sem unnt er að stunda viðskipti með undir eftirliti. Þar sem Ísland er ekki aðili að CITES, og bæði Noregur og Japan hafa gert fyrirvara um núverandi viðskiptatakmarkanir, hafði afgreiðsla málsins fyrst og fremst táknræna þýðingu. Niðurstaða atkvæðagreiðslu um tillöguna var þessi: 57 greiddu atkvæði með tillögunni, 51 ríki var á móti og 6 ríki sátu hjá. Til þess að tillagan hefði bindandi þýðingu fyrir aðildarlönd CITES þurfti 2/3 hluta þeirra sem greiddu atkvæði með eða á móti.

Óhætt er að segja að þessi niðurstaða sé mikill sigur fyrir sjónarmið sjálfbærrar nýtingar allra dýrastofna. Góð samstaða náðist með ríkjum sem háð eru nýtingu villtrar náttúru um allan heim. Til marks um breytta stöðu má geta þess að tillaga Norðmanna sama eðlis árið 1994 hlaut stuðning 16 ríkja; 48 ríki greiddu þá atkvæði gegn tillögunni og 52 ríki sátu hjá.

Reykjavík, 18. júní 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta