Hoppa yfir valmynd
18. júní 1997 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur EFTA í Genf, 19.-20.júní 1997

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 57


Ráðherrafundur EFTA verður haldinn hinn 19. júní 1997 í Genf í Sviss. Guðmundur Bjarnason, landbúnaðar- og umhverfisráðherra, situr fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra. Á fundinum verður m.a. rætt um innra starf EFTA, EES-samninginn, samskipti EFTA við ESB og samskipta EFTA við þriðju ríki.

Jafnframt munu ráðherrar EFTA sama dag eiga fundi með þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA. Á þeim fundum verður skipst á skoðunum, m.a. um niðurstöður leiðtogafundar ESB í Amsterdam 16.-17. júní og hugsanleg áhrif þeirra á EES. Einnig verður rætt um samskipti EFTA við þriðju ríki, Efnahags- og myntbandalagið, innri markað ESB, atvinnumál Evrópu, stefnuna í orkumálum Evrópu og málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Í tengslum við ráðherrafund EFTA verður undirritaður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Marokkó. Samningurinn felur í sér fríverslun með iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarafurðir. EFTA-ríkin afnema tolla á þessum vörum við gildistöku hans með heimild til verðjöfnunar á unnar landbúnaðarafurðir. Af hálfu Marokkó verða slíkir tollar smám saman afnumdir á tólf ára aðlögunartíma. Samningurinn kemur í kjölfar svipaðra samninga sem EFTA-ríkin hafa gert við ríki Austur-Evrópu, Tyrkland og Ísrael.

Einnig munu ráðherrar EFTA undirrita samstarfsyfirlýsingar milli EFTA-ríkjanna og Jórdaníu og Líbanon um aukna samvinnu ríkjanna.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 18. júní 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta