Hoppa yfir valmynd
24. júní 1997 Matvælaráðuneytið

Bann við tog- og dragnótaveiðum fyrir suðurströndinni

Bann við tog- og dragnótaveiðum
fyrir suðurströndinni


Eins og kunnugt er gaf ráðuneytið út reglugerð 20. júní s.l. þar sem bannaðar voru allar humar- og dragnótaveiðar á fjórum aðgreindum svæðum fyrir suðurströndinni auk banns við humarveiðum austan Ingólfshöfða. Banni þessu var ætlað að vernda smáhumar á þeim svæðum sem smáhumarinn er talinn helst halda sig. Jafnframt voru dragnótaveiðar bannaðar á sömu svæðum til að koma í veg fyrir frekara álag á veiðislóðina.

Fram hefur komið í fréttum að skiptar skoðanir eru um setningu reglugerðarinnar. Telja ýmsir að banna hefði átt allar togveiðar á svæðunum en ekki aðeins humar- og dragnótaveiðar. Ennfremur telja dragnótaveiðimenn ráðuneytið með þessum aðgerðum slá því föstu að dragnótin spilli botni og holum humarsins.

Ljóst er að þörf er á ítarlegri rannsóknum á áhrifum notkunar veiðarfæra á hafsbotninn og lífríkið. Þannig verður engu slegið föstu um áhrif einstakra veiðarfæra á hafsbotninn og híbýli humarsins. Ráðuneytið telur hins vegar þegar gripið er til jafn róttækra aðgerða til verndunar humrinum eins og hér um ræðir verði ekki hjá því komist að takmarka veiðar með öðrum veiðarfærum til að koma almennt í veg fyrir álag á veiðislóðina.

Ráðuneytið hefur aflað gagna um sókn skipa á umrædd svæði á tímabilinu 1. júlí til 15. ágúst 1996. Þar kemur í ljós að mest aflast í dragnót á svæðunum en nokkuð í botnvörpu. Í hvorugt veiðarfærið er um mikið aflamagn að ræða. Ráðuneytið hefur í ljósi þess í dag gefið út reglugerð þar sem bannaðar eru allar togveiðar og dragnótaveiðar á umræddum svæðum og tekur sú reglugerð gildi 1. júlí og gildir til 15. ágúst 1997.

Sjávarútvegsráðuneytið
24. júlí 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta