Stofnfundur Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 13/1997
Í dag, mánudaginn 30. júní, var haldinn stofnfundur Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., en með lögum nr. 60/1997, um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., var ákveðið að stofna fjárfestingarbanka á grunni Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Fjárfestingarbankinn tekur til starfa 1. janúar 1998 og verða fyrrgreindir lánasjóðir lagðir niður frá og með sama tíma. Fram að þeim tíma er hinum nýstofnaða Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. ætlað það verkefni að undirbúa starfsemi sína sem lánastofnun, sbr. tilvitnuð lög.
Á stofnfundinum var hlutafélagið lýst stofnað og undirrituðu iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra stofnyfirlýsingu því til staðfestingar. Þar sem matsnefnd sú sem ráðherra hefur samkvæmt fyrrgreindum lögum skipað sér til ráðuneytis til að leggja mat á heildarfjárhæð hlutafjár í félaginu við stofnun þess hefur ekki lokið störfum var stofnfundi frestað þar til niðurstöður nefndarinnar og endanleg ákvörðun ráðherra á fjárhæð stofnhlutafjár liggur fyrir. Af því leiðir að stjórnarkjöri er frestað til framhaldsstofnfundar.
Þá hefur starfsmönnum Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands, og fyrrgreindra lánasjóða verið send bréf þar sem kynntar eru þær breytingar sem felast í lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, lögum nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og lögum nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Samkvæmt þessum lögum eiga starfsmenn ríkisviðskiptabankanna kost á sambærilegu starfi hjá viðkomandi hlutafélagsbanka og starfsmenn þeirra lánasjóða sem fyrr eru greindir kost á starfi í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. eða Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Með bréfunum var starfsmönnum gerð grein fyrir réttarstöðu sinni við þær breytingar sem framundan eru.