Hoppa yfir valmynd
8. júlí 1997 Utanríkisráðuneytið

NATO Leiðtogafundur í Madrid

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


    Nr. 65

    Benedikt Jónsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf, flutti í dag fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra ávarp á fundi háttsettra aðila (High-level segment) á ársfundi Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC), sem nú stendur yfir í Genf.
    Meginviðfangsefni fundarins að þessu sinni er þróunarsamvinna og viðleitni til að skapa hagstætt umhverfi fyrir þróun, fjármagnsflutninga, fjárfestingar og viðskipti.
    Ársfundurinn er sá fyrsti, sem fulltrúar íslenskra stjórnvalda sitja, eftir að Íslendingar tóku sæti í ráðinu í ársbyrjun.
    Í ávarpinu var gerð grein fyrir helstu áherslum Íslands í fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi, þar með talin nauðsyn á öflugu einkaframtaki í þróunarlöndunum og afnámi verslunarhafta í því skyni að skapa hagstætt umhverfi fyrir þróunarsamstarf, en auk þess áhersla á uppbyggingu á sem flestum sviðum samfélagsins, m.a. í menntun, heilsugæslu, félagslegri þjónustu og jafnframt á aukin réttindi kvenna. Gerð var grein fyrir tvíhliða þróunarsamstarfi Íslendinga.
    Í ávarpinu var fjallað um mikilvægi lífrænna auðlinda hafsins fyrir þjóðir heims, ekki síst íbúa þróunarlandanna.
    ECOSOC er helsti vettvangur Sameinuðu þjóðanna fyrir umræður um efnahagsmál, félagsmál og þróunarmál. Helstu stofnanir samtakanna, sem um þau mál fjalla, gera ráðinu grein fyrir störfum sínum, auk þess sem ráðið fjallar um störf helstu nefndar Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði.
    Á fundum ráðsins í ár hafa fulltrúar Íslands verið kjörnir í nefnd Sameinuðu þjóðanna um nýja og endurnýjanlega orkugjafa og tölfræðinefnd samtakanna.


    Utanríkisráðuneytið,
    Reykjavík, 4. júlí 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta