Hoppa yfir valmynd
8. júlí 1997 Matvælaráðuneytið

Settur forstjóri R.f.

Fréttatilkynning

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins


Dr. Grímur Valdimarsson, forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins hefur verið ráðinn forstöðumaður fiskiðnaðarsviðs Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðuþjóðanna (FAO) frá 1. október n.k. að telja. Fiskiðnaðarsviðið er eitt af þremur sviðum fiskideildar FAO. Markmið starfsemi þess er að aðstoða aðildarríki Sameinuðuþjóðanna við þróun í fiskiðnaði. Margir Íslendingar unnu áður fyrr hjá fiskideild FAO til langs eða skamms tíma við ráðgjöf af ýmsu tagi. Hin síðari ár hefur verið minna um að Íslendingar starfi á vegum fiskideildarinnar og skapast því með ráðningu Gríms á ný mikilvæg tengsl við starfsemi fiskideildarinnar. Ráðning Gríms er til þriggja ára og hefur honum verið veitt leyfi frá störfum sínum sem forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á meðan.

Dr. Hjörleifur Einarsson hefur jafnframt verið settur til að gegna störfum forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins frá 1. október n.k. Hjörleifur lauk líffræðinámi með B.Sc. prófi frá Háskóla Íslands 1978 og B.Sc. prófi í matvælafræði vorið 1979, einnig frá Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í matvælafræði við SIK-sænsku matvælarannsóknastofnunina og Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og lauk því námi með doktorsprófi í febrúar 1987. Hjörleifur starfaði sem verkefnastjóri hjá SIK frá 1985-1988 er hann hóf störf hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins en þar hefur hann starfað síðan. Hann var ráðinn aðstoðarforstjóri stofnunarinnar hinn 1. júní 1996. Hann hefur einnig stundað kennslu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Hjörleifur er fæddur 1954. Hann er kvæntur Sigurbjörgu Sigurðardóttur meinatækni og eiga þau þrjú börn.

Sjávarútvegsráðuneytið, 8. júlí 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum