Starfshættir faggiltra óháðra skoðunarstofa í sjávarútvegi
Fréttatilkynning
Starfshættir faggiltra óháðra
skoðunarstofa í sjávarútvegi
Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa í sjávarútvegi. Með henni er svarað breyttum kröfum um eftirlit í helstu viðskiptalöndum okkar.
Sett eru fagleg skilyrði fyrir starfsemi skoðunarstofa sem annast skoðun á aðstöðu, hreinlæti og innra eftirliti framleiðenda sjávarafurða. Meðal nýmæla eru:
· Skoðunarstofur í sjávarútvegi verða framvegis að hafa hlotið faggildinu í samræmi við íslenskan staðal ÍST EN 45 004.
· Skilið er á milli ráðgjafar og eftirlits. Þannig má skoðunarstofa ekki veita framleiðanda ráðgjöf eða aðstoð við markaðssetningu. Skilyrðið er sett til að koma í veg fyrir að niðurstöður skoðana séu véfengdar.
· Þá er sett skilyrði um eignaraðild. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi mega nú ekki eiga beint í skoðunarstofum.
Fiskistofa veitir skoðunarstofum starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í reglugerðinni. Skoðunarstofum er gert að sanna hæfni sína með því að hafa faggildingu í samræmi við ÍST EN 45 004.
Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 1998. Skoðunarstofur geta þó fengið starfsleyfi hjá Fiskistofu í allt að sex mánuði án þess að hafa hlotið faggildingu, uppfylli þær önnur skilyrði reglugerðarinnar og hafi sótt um faggildingu hjá Löggildingarstofu.
Sjávarútvegsráðuneytið
20. júlí 1997