Opinber heimsókn utanríkisráðhr. til Argentínu og Chíle
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 72
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, verður í opinberri heimsókn í Argentínu og Chile 12. – 21. ágúst nk. Með í för utanríkisráðherra verður fjölmennasta viðskiptasendinefnd sem fylgt hefur íslenskum ráðherra í opinbera heimsókn erlendis, en sendinefndin telur 18 fulltrúa frá fyrirtækjum, auk fulltrúa frá Útflutningsráði Íslands, Fjárfestingarskrifstofu Íslands og Félagi Íslenskra stórkaupmanna, samtals 27 aðilar.
Í Buenos Aires í Argentínu er ráðgert að utanríkisráðherra eigi fundi með forseta Argentínu, Dr. Carlos Saul Menem, utanríkisráðherranum Guido Di Tella og yfirmanni sjávarútvegsmála Felípe Solá.
Staðið verður fyrir viðamikilli fyrirtækja- og fjárfestingarkynningu og utanríkisráðherra mun eiga fundi með forsvarsmönnum ýmissa leiðandi fyrirtækja og heimsækja Mar del Plata, helstu hafnarborg Argentínu.
Þá mun utanríkisráðherra ávarpa hina virtu stofnun um alþjóðasamskipti, CARI. Eins mun utanríkisráðherra opna myndlistasýningu Ara Alexanders Ergis Magnússonar í Centro Cultural Recoleta myndlistasafninu í Buenos Aires og heimsækja Borges-stofnunina, sem er til heiðurs helsta rithöfundi Argentínu Jorge Lois Borges sem var eins og kunnugt er mikill Íslandsvinur.
Í Santiago í Chile mun utanríkisráðherra eiga fundi með forseta Chile, Eduardo Frei Ruiz-Tagle, utanríkisráðherranum Jose Muguel Insulza og efnahagsráðherranum Alvardo García. Einnig verður staðið fyrir viðamikilli fyrirtækja- og fjárfestingarkynningu þar. Utanríkisráðherra mun heimsækja borgina Concepcion þar sem ýmis sjávarútvegsfyrirtæki verða skoðuð auk þess sem utanríkisráðherra mun eiga fundi með forsvarsmönnum ýmissa leiðandi fyrirtækja þar í borg.
Ákveðið hefur verið að leggja aukna áherslu á þátt utanríkisviðskipta í starfsemi utanríkisþjónustannar til þess að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins sem fylgja vaxandi alþjóðaviðskiptum og aukinni útrás íslenskra fyrirtækja. Þáttur í þessari stefnubreytingu hefur verið að efla sendiráð Íslands erlendis með stofnun viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins hinn 1. september nk. og auka tengsl við ríki sem búið hafa við stöðugleika og mikinn hagvöxt á undanförnum árum, ekki síst við þau ríki þar sem löng hefð er fyrir sjávarútvegi. Í þessum tilgangi var farin opinber heimsókn til Kóreu á síðasta ári og nú til Argentínu og Chile en undirbúningur heimsóknarinnar hefur staðið í tæpt ár.
- Reykjavík, 11. ágúst 1997