Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 1997 Matvælaráðuneytið

Undirritun samninga um Norðurál

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Landsvirkjun og Norðurál
Nr.14/1997




Gengið frá samningum um álver Norðuráls á Grundartanga Á sérstökum undirskriftarfundi í dag, fimmtudaginn 7. ágúst 1997, voru undirritaðir endanlegir samningar vegna álvers Norðuráls hf. á Grundartanga. Um er að ræða eftirtalda samninga:

1. Fjárfestingarsamningur sem undirritaður var af iðnaðar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf.
2. Hafnarsamningur undirritaður af fulltrúum hafnarsjóðs Grundartangahafnar og Norðuráls hf.
3. Viðauki við lóðarsamning undirritaður af fjármálaráðherra og fulltrúa Norðuráls hf.
4. Rafmagnssamningur vegna álversins undirritaður af fulltrúum Landsvirkjunar og Norðuráls hf.
5. Rafmagnssamningur um sölu á rafmagni frá Nesjavöllum undirritaður af fulltrúum Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar.

Þá voru undirritaðir ýmsir hliðarsamningar og minnisblöð er tengjast ofangreindum samningum, þ.á m. samningar á milli ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga og hafnarsjóðs Grundartangahafnar svo og fulltrúa banka þeirra er annast fjármögnun álversins og íslensku samningsaðilanna er miða að því að tryggja byggingu og rekstur álversins.

Samningar um fjármögnun undirritaðir á næstu dögum
Norðurál hf. hefur nú komist að samkomulagi við ING Barings í Hollandi og Banque Paribas í Frakklandi um fjármögnun álversins. Lögfræðingar samningsaðila eru að leggja síðustu hönd á samningsskjöl sem verða undirrituð föstudaginn 15. þ.m. Höfuðstöðvar ING eru í Amsterdam og Paribas í París. Báðir bankarnir hafa mikla reynslu af verkefnafjármögnun á alþjóða vettvangi, þ.á m. á sviði álframleiðslu.

Álver Norðuráls hf. á Grundartanga mun í fyrstu geta framleitt allt að 60 þúsund tonn af áli á ári og auka árlegan útflutning íslenska þjóðarbúsins um 6,8 milljarða króna. Framkvæmdum við byggingu álversins miðar vel áfram og nú þegar vinna 90 manns við þær. Áætlað er að rekstur álversins hefjist um mitt ár 1998 og er byrjað að ráða starfsmenn til að undirbúa hann. Rafmagnssamningur Landsvirkjunar og Norðuráls gildir til ársloka 2018. Árleg orkuþörf álversins er allt að 930 GWh, en aflþörfin er 107 MW.

Rafmagnssamningur Landsvirkjunar við Norðurál er þriðji samningurinn sem Landsvirkjun gerir við stóriðjufyrirtæki á undanförnum tveimur árum.

Þetta hefur það í för með sér að rafmagnsframleiðsla Landsvirkjunar mun aukast á næstu þremur árum um tæp 50%. Samanlögð aukning á orkuþörf vegna þessara samninga getur orðið rúmlega 2.300 GWst á ári. Til samanburðar framleiddi Landsvirkjun tæplega 4.800 GWst af rafmagni á árinu 1996 og var það um 93% rafmagnsframleiðslunnar á landinu.

Vegna þessarar miklu aukningar í raforkunotkun hefur verið ráðist í Sultartangavirkjun (120 MW) og ýmsar fleiri framkvæmdir. Þar má nefna gerð Hágöngumiðlunar og lagningu nýrrar háspennulínu frá Búrfellsstöð að Sandskeiði en ennfremur er unnið að margvíslegum öðrum framkvæmdum til þess að efla raforkukerfið.

Loks má geta þess að Reykjavíkurborg reisir 60 MW jarðgufuvirkjun á Nesjavöllum og mun Landsvirkjun kaupa þaðan rafmagn til viðbótar við eigin framleiðslu. Með öllum þessum aðgerðum verður hægt að anna hinni auknu orkuþörf vegna stóriðju og almennri aukningu í landinu fram til ársins 2005.

Reykjavík, 7. ágúst 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta