Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 1997 Matvælaráðuneytið

Samstarf Ísl. og Rússl. á sviði sjávarútvegs

Drög að tvíhliða samningi Íslands og Rússlands
um samskipti og samstarf á sjávarútvegssviði


Undanfarna mánuði hafa fulltrúar íslenskra og rússneskra stjórnvalda fundað um samskipti landanna á sjávarútvegssviði með það í huga að auka samstarf þjóðanna og festa sem best í sessi.

Í dag voru árituð í Moskvu lokadrög að tvíhliða samningi ríkjanna um samstarf og samskipti á sjávarútvegssviðinu, en samningurinn bíður undirritunar og formlegrar staðfestingar stjórnvalda beggja ríkja. Samningurinn er afar víðtækur og nær til samstarfs á sviði hafrannsókna, fiskveiða, stjórnunar veiða, tæknisamvinnu varðandi veiðar og vinnslu, og menntunar. Síðast en ekki síst fjallar samningurinn um tvíhliða samskipti ríkjanna varðandi veiðiheimildir. Samningurinn skapar möguleika á víðtækara og nánara samstarfi Rússa og Íslendinga á þessu sviði en verið hefur og er nauðsynleg umgjörð um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögum landanna sem síðar kann að verða samið um. Þá er slíkur samningur forsenda þess að Íslendingum gefist kostur á þeim kvótum í rússneskri lögsögu sem heimilt er að selja eða leigja samkvæmt ákvörðun rússneskra stjórnvalda hverju sinni.

Samningur þessi mun geta greitt fyrir hvers konar viðskiptum við Rússland með varning og þjónustu er tengist sjávarútvegi beint eða óbeint, þ.m.t. viðhalds- og nýsmíðaverkefnum.

Í samningnum er gert ráð fyrir stofnun íslensks-rússnesks fiskveiðiráðs sem ætlað er að fjalla um öll þau mál sem snerta sjávarútveginn og stjórnvöld telja mikilvæg. Jafnframt ákveða stjórnvöld að koma á fót stöðum fiskimálafulltrúa í Reykjavík og Moskvu sem starfa munu að framgangi samningsins eftir því sem þörf krefur.

Utanríkisráðuneytið
Sjávarútvegsráðuneytið
20. ágúst 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum