Hoppa yfir valmynd
1. september 1997 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Starfsreglur sérdeilda - september 1997

Dreifibréf til sveitarstjórna


Starfsreglur sérdeilda

Menntamálaráðuneytið vekur hér með athygli allra sveitarstjórna á ákvæðum 3. mgr. 38. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla þar sem segir: "Menntamálaráðherra staðfestir starfsreglur sérskóla/sérdeilda að fengnum tillögum sveitarstjórna".

Með bréfi þessu fylgja verklagsreglur þar sem fram koma skilgreiningar, skýringar á málsmeðferð og skilyrði sem menntamálaráðuneytið telur að starfsreglur þurfi að uppfylla til að fá staðfestingu menntamálaráðherra.

Menntamálaráðuneytið óskar eftir því að starfsreglur frá öllum sérskólum/sérdeildum, sem reglur þessar eiga við um, hafi borist ráðuneytinu fyrir árslok 1997.

Verklagsreglur
um viðurkenningu menntamálaráðherra á starfsreglum
sérskóla/sérdeilda
samkvæmt 38. gr. laga nr 66/1995 um grunnskóla.

  1. Reglur þessar eiga við um sérskóla og sérdeildir á grunnskólastigi.
    Með sérskóla er átt við skóla á grunnskólastigi sem sérhæfðir eru í kennslu nemenda sem falla undir 37. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995. Dæmi um sérskóla í þessari merkingu eru Öskjuhlíðarskóli, Vesturhlíðaskóli, Einholtsskóli, Dalbrautarskóli.


    Með sérdeild er átt við sérhæfðar deildir, hliðstæðar svonefndum sérdeildum ríkisins fyrir flutning grunnskólans, sem starfræktar eru í almennum grunnskóla en taka við nemendum víða að. Dæmi um sérdeildir í þessari merkingu eru Sérdeild fyrir einhverfa í Digranesskóla, Sérdeild fyrir blinda og sjónskerta í Álftamýrarskóla, Sérdeild fyrir hreyfihamlaða í Hlíðaskóla.

    Ekki er þörf á staðfestingu ráðherra á starfsreglum sérdeilda sem þjóna einstökum skólum eða skólahverfum.

  2. Sérskólar/sérdeildir hafa tvenns konar hlutverk. Þeim er ætlað:
    • að veita nemendum sérhæft námsumhverfi í lengri eða skemmri tíma
    • að veita starfsfólki almennra grunnskóla ráðgjöf og kennslufræðilegan stuðning"
      (sbr. 1. mgr. 38. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995).

    Samkvæmt þessu verður að gera þá kröfu til starfsreglna að þær innihaldi:
    1. lýsingu á námsumhverfi, sérstöðu sérskóla/sérdeildar og þjónustu við nemendur,
    2. lýsingu á því hvernig sérdeild/sérskóli ætlar að veita almennum grunnskólum ráðgjöf og kennslufræðilega þjónustu.

  3. Í 3. mgr. 38. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 segir: "Menntamálaráðherra staðfestir starfsreglur sérdeilda/sérskóla að fengnum tillögum sveitarstjórna. Í starfsreglum skal kveðið á um frávik frá almennri námskrá og öðrum viðmiðunum laga um grunnskóla".

    Samkvæmt þessu lagaákvæði gildir að:
    1. ósk um staðfestingu ráðherra á starfsreglum verður að berast formlega frá sveitarstjórn eða sveitarstjórnum (samtökum sveitarstjórna) sem standa sameiginlega að rekstri sérskóla/sérdeildar,
    2. í starfsreglum verður að koma fram lýsing á frávikum frá aðalnámskrá grunnskóla og grunnskólalögum ef um það er að ræða í starfsemi sérskóla/sérdeildar.

  4. Í starfsreglum sérskóla/sérdeilda sem sendar eru ráðherra til staðfestingar, þarf að koma fram:
    1. Heiti sérskóla/sérdeildar
    2. Hlutverk og starf (með tilvísun í lög og reglugerðir, önnur hlutverk, stefna, vinnubrögð, markmið og aðferðir, frávik frá almennri námskrá, einstaklingsnámskrár, ráðgjöf)
    3. Stjórnun (forstöðumaður, valdsvið, skipulag)
    4. Starfsfólk (sérhæfing, menntun, kennsluhlutverk, ráðgjafarhlutverk)
    5. Nemendur (reglur um innritun og útskrift)
    6. Námsumhverfi (húsnæði, aðbúnaður)
    7. Rekstur (fjármál, samvinna sveitarfélaga)
    8. Annað sem ábyrgðaraðilar sérskóla/sérdeilda telja þörf á að komi fram.

  5. Innan ráðuneytisins undirbýr grunn- og leikskóladeild staðfestingu ráðherra á starfsreglum í samráði við aðrar deildir eftir atvikum. Ef þörf krefur skal leitað álits sérfróðra aðila utan ráðuneytisins.

  6. Reglur þessar eru verklagsreglur innan menntamálaráðuneytisins en þjóna einnig sem leiðbeining til þeirra aðila á vegum sveitarstjórna sem undirbúa starfsreglur sérskóla/sérdeilda til viðurkenningar ráðherra samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.


Reykjavík, 18. september 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum