Utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna í Bergen
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 077
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat í dag utanríkisráðherrafund Norðurlanda í Bergen í Noregi undir forsæti Björns Tore Godal utanríkisráðherra Noregs. Á fundinum voru að venju tekin til umfjöllunar þau mál sem efst eru á baugi á alþjóðavettvangi. Ræddu ráðherrarnir sérstaklega þróun samrunaferlisins í Evrópu í kjölfar niðurstöðu leiðtogafundar Evrópusambandsríkja í Amsterdam með áherslu á fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins, sem og þá ákvörðun að Schengen-samstarfið yrði fært inn á vettvang ESB. Þá ræddu þeir öryggismál Evrópu og hafði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra framsögu um stöðuna að afloknum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madríd. Jafnframt var undir þessum lið fjallað um vaxandi mikilvægi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, en Danir gegna nú formennsku þar og munu Norðmenn taka við formennskunni á árinu 1999. Loks fjölluðu ráðherrarnir sérstaklega um mikilvægi pólitískrar samvinnu á vettvangi EES með sérstakri vísan til leiðtogafundarins 10.-11. október næstkomandi.
Að öðru leyti vísast til hjálagðrar yfirlýsingar fundarins, en eins og þar kemur fram skipuðu mannréttinda- og friðarmál einnig veglegan sess á fundi ráðherranna.
Reykjavík, 3. september 1997