Hoppa yfir valmynd
10. september 1997 Matvælaráðuneytið

Stofnun Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og framhaldsstofnfundir Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Fréttatilkynning frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 15/1997





Í dag miðvikudaginn 10. september, verða stofnuð hlutafélögin Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf., en hinn 1. janúar 1998 munu hlutafélögin hvort um sig taka við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar. Í dag verður einnig framhaldsstofnfundur Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. haldinn og stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins mun taka til starfa. Fjárfestingarbankinn og Nýsköpunarsjóður taka einnig til starfa 1. janúar 1998 en þeir verða reistir á grunni Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs.

Hlutafélögin munu fram til áramóta undirbúa starfsemi sína sem lánastofnanir og stjórn Nýsköpunarsjóðs mun á sama tíma undirbúa starfsemi sjóðsins.

Fyrrgreindar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði voru ákveðnar með lögum í lok síðasta löggjafarþings. Breytingarnar fela í sér heildaraðgerð á fjármagnsmarkaði sem ætlað er að jafna samkeppnisaðstæður samhliða því að skapa aukna samkeppni á þessu sviði. Þær endurspegla ennfremur breytta tíma á þessu sviði og eru í samræmi við þá þróun sem nú á sér stað á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði.

Með aðgerðunum verða atvinnulífi og einstaklingum tryggður greiðari aðgangur að hagkvæmu fjármagni. Einnig fela þær í sér stefnumörkun til framtíðar að því er varðar þátttöku ríkisins á fjármagnsmarkaði, með því að dregið verður úr hlutdeild ríkisins sem eiganda á þeim sviðum fjármálaþjónustu þar sem samkeppni þrífst best, en aðstoð þess á sviði nýsköpunar og þróunar er aukin.

I. Breytingar á fjármagnsmarkaði.

Undirbúningur breytinga

Samkvæmt lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hefur viðskiptaráðherra skipað tvær þriggja manna nefndir, sem hvorri um sig er ætlað að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar hlutafélags um hvorn ríkisviðskiptabankanna. Nefndirnar hafa nú skilað áfangaskýrslu til ráðherra þar sem settar eru fram tillögur þeirra og drög að stofnyfirlýsingum og samþykktum. Ráðherra hefur fallist á meginniðurstöður þeirra.

Samkvæmt sömu lögum skipaði ráðherra matsnefnd um hvorn bankanna fyrir sig. Nefndunum var ætlað það hlutverk að meta stofnhlutafé bankanna og vera ráðherra til ráðgjafar á því sviði. Að því verki hafa þær unnið og skilað ráðherra niðurstöðum sínum um matsverð hlutafjár við stofnun bankanna. Ráðherra hefur sömuleiðis fallist á meginniðurstöður matsnefndanna og eru ákvarðanir um hlutafé í samræmi við þær, eins og síðar er vikið að.

Við undirbúning að sameiningu fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. annars vegar en Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hins vegar hefur samráðshópur ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og forsætisráðuneytis átt náið samráð við fulltrúa samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði.

Við undirbúning breytinganna hefur einnig verið haft samráð við starfsmenn viðkomandi fjármálastofnana.

Meginsjónarmið við breytingar

Við þær breytingar sem nú verður ráðist í eru nokkur meginsjónarmið höfð í huga. Þ.e. að þegar hin nýju hlutafélög taka til starfa um næstu áramót, verður ábyrgð ríkisins á rekstri afnumin. Með því verður samkeppnisstaða íslenskra fjármálastofnana jöfnuð en hinum nýju lánastofnunum jafnframt lögð sú skylda á herðar að starfa á jafnréttisgrundvelli á samkeppnismarkaði. Brýnt er að sem best takist til í þessum efnum og lánastofnanirnar styrki sig á markaði, ekki síst með tilliti til lánskjara á innlendum og alþjóðlegum markaði.

Hvað varðar breytingarnar á sjóðakerfinu er það að auki lagt til grundvallar að ríkið dragi úr hlutverki sínu á samkeppnismarkaði en auki það á markaði áhættufjármögnunar þar sem verulega skortir á. Lagaheimildir til sölu á nýju hlutafé í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. auk lagaheimildar til sölu á 49% hlut í Fjárfestingarbankanum hf. undirstrikar þennan ásetning. Þá verður Nýsköpunarsjóðurinn alfarið í eigu ríkisins, enda ætlaður til áhættufjármögnunar í víðum skilningi.

Næstu skref við breytingar á bönkum og sjóðum í eigu ríkisins taka mið af þessum staðreyndum. Með þeim er lögð áhersla á að viðhalda styrkri stöðu þeirra á neytendamarkaði en einnig gagnvart lánardrottnum þeirra á alþjóðamarkaði.



II. Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf.

Þegar hin nýju hlutafélög um bankana taka til starfa um næstu áramót verður mikil breyting á starfsumhverfi þeirra. Ábyrgð ríkisins á rekstri þeirra verður afnumin og því er brýnt að vel takist til við þá veigamiklu breytingu sem nú er fyrir höndum á rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna. Þeir hafa báðir þjónað bæði eiganda sínum og viðskiptavinum vel í áratugi. Nú þurfa hin nýju hlutafélög að takast á við þetta vandasama hlutverk í breyttu umhverfi. Svo að sem best takist til í þeim efnum er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi:

* Þar sem starfsemi nýja hlutafélagabankans mun byggja á þeim grunni sem ríkisviðskiptabankarnir hafa starfað á er nauðsynlegt að við stofnun hinna nýju hlutafélagsbanka verði þess gætt að starfsemi þeirra verði í rökréttu framhaldi af starfsemi ríkisviðskiptabankanna. Með því verði viðhaldið því trausti og trúnaði gagnvart viðskiptavinum, starfsfólki og lánardrottnum sem þeir hafa aflað sér.

* Stefnt verði að skráningu hlutafélagsbankanna á Verðbréfaþingi Íslands. Lagaheimild til útboðs og sölu á nýju hlutafé verði nýtt að hluta í þessu skyni. Með þessu verði aðhald og agi í rekstri bankans tryggður, þ.e. með auknu aðhaldi hluthafa, virkum samanburði við önnur fyrirtæki og reglum Verðbréfaþingsins. Jafnframt mun útboð og sala á takmörkuðum hluta fyrirliggjandi heimildar leggja grunn að markaðsvirði sem auðveldar ákvarðanir um frekari eiginfjáröflun.

* Ráðinn verði einn aðalbankastjóri, sem ásamt tveimur bankastjórum fari með meginábyrgð á daglegum rekstri bankans og ákvörðunarvald. Saman myndi þessir þrír bankastjórn. Þannig er lögð áhersla á að skipulag yfirstjórnar verði skýrt, þ.e. að yfirstjórn verði afmörkuð með skýrum hætti og verkefnasvið bankastjóra vel skilgreind.

* Til að einfalda stjórnkerfi bankanna og skýra og afmarka vel verksvið yfirstjórnar verða starfsheitin aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri ekki notuð í stjórnskipulagi bankanna.

* Bankaráðum hlutafélagsbankanna er ætlað að setja skýrar reglur um starfskjör yfirstjórnar og ákveða heildarlaun í ráðningarsamningi. Í því felst m.a. að bankastjórar þiggi ekki laun fyrir setu í stjórnum, nefndum og ráðum fyrirtækja og stofnana á vegum viðkomandi banka.

* Af hálfu starfsmanna er lögð áhersla á að þeir eigi áheyrnarfulltrúa í nýjum bankaráðum og mun viðskiptaráðherra beita sér fyrir að svo verði.

 

 

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

Með sameiningu Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs, Útflutningslánasjóðs og Fiskveiðasjóðs er ráðist í umfangsmestu breytingar á fjárfestingarlánasjóðakerfi landsmanna um áratugaskeið. Í stað sjóðanna fjögurra verða til tvær sterkar fjármálastofnanir, annars vegar hlutafélag um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins en hins vegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem alfarið verður í eigu ríkisins.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Hliðstæð sjónarmið eru lögð til grundvallar við stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og við stofnun bankanna. Þannig er lögð áhersla á skráningu á Verðbréfaþingi Íslands en heimilt er að selja allt að 49% af hlutafé ríkissjóðs í bankanum. Einnig er lögð áhersla á einfalda yfirstjórn og afmörkun á skuldbindingum ríkissjóðs vegna breytinganna. Þá er mikilvægt að hagkvæmni verði gætt í starfsemi hins nýja fjárfestingarbanka. Með því verði hvort tveggja tryggð góð afkoma bankans en einnig greiður aðgangur íslenskra fyrirtækja að fjármagni á hagstæðum kjörum.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

Við undirbúning Nýsköpunarsjóðs verður lagður grunnur að vandaðri áhættufjármögnun vegna nýsköpunar og öðrum beinum stuðningi við nýsköpun. Í starfsreglum verður kveðið á um áherslur í starfsemi sjóðsins og starfsheimildir hans. Lögð er áhersla á hagkvæmni í rekstri sjóðsins.

Stofnfé Nýsköpunarsjóðsins mun nema 4.000 mkr. Auk þess verður eigið fé Vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs greitt til sjóðsins og haldið þar aðgreindu til sérstakrar ráðstöfunar á fyrstu þremur starfsárum hans. Þá verður 1.000 mkr. af söluandvirði Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. ráðstafað til sérstaks stuðnings við nýsköpunarverkefni á sviði upplýsinga- og hátækni með áherslu á landsbyggðina í samvinnu við fjármálafyrirtæki og aðila í atvinnuþróun.

 
 

 

IV. Stofnfundir fjármálastofnananna.

Á stofnfundum þeim sem haldnir verða síðar í dag verður stofnyfirlýsing undirrituð og samþykktir bornar undir atkvæði. Einnig verða stjórnir hlutafélaganna kosnar ásamt endurskoðanda. Þá verður stjórn Nýsköpunarsjóðsins skipuð.

Á fundunum verður einnig kynnt ákvörðun viðskiptaráðherra um stofnfé hlutafélaganna. Ákveðið hefur verið að hlutafé Landsbanka Íslands hf. verði við stofnun 5.500 mkr., og hlutafé Búnaðarbanka Íslands hf. verði 3.500 mkr. Fjárhæð stofnhlutafjár Fjárfestingarbankans verður hins vegar 6.800 mkr.

V. Næstu skref.

Fréttatilkynningar um kosningu í stjórnir hlutafélaganna og skipun stjórnar Nýsköpunarsjóðsins verða sendar fjölmiðlum að loknum hverjum stofnfundi síðar í dag. Að loknum stofnfundum munu stjórnir stofnananna strax huga að ráðningu æðstu stjórnenda og er þess vænst að unnt verði að ganga frá ráðningu þeirra í þessum mánuði.

Þegar stjórnir hlutafélaganna hafa tekið til starfa munu þær, ásamt stjórnendum undirbúa starfsemi sína sem viðskiptabankar og lánastofnanir. Sama máli gegnir um stjórn Nýsköpunarsjóðs. Undirbúningsnefndir bankanna munu þó halda áfram að huga að undirbúningi atriða er varða ríkissjóð miklu. Viðskiptaráðherra mun undirbúa hliðstæð atriði er varða Fjárfestingarbankann og Nýsköpunarsjóð.

 

Reykjavík, 10. september 1997.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta