Hoppa yfir valmynd
19. september 1997 Matvælaráðuneytið

Ársfundur NAFO

Ársfundur NAFO


Íslendingar hafna sóknarstýringu á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni og munu áfram setja sér einhliða kvóta þar. Þá lýstu Íslendingar andstöðu við það á fundi NAFO að halda áfram óbreyttu eftirliti með veiðunum.

Ársfundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, NAFO, sem staðið hefur yfir í St. John}s á Nýfundnalandi frá 15. september lauk í dag.

Á fundinum var m.a. rætt um stjórn rækjuveiða á Flæmingjagrunni. Íslendingar hafa ekki tekið þátt í öðrum veiðum á NAFO - svæðinu, en aðrir stofnar eru veiddir í litlu magni eða háðir veiðibanni vegna slæms ástands þeirra. Vísindaráðgjöf var ekki talin gefa tilefni til róttækra breytinga á rækjuveiðum 1998. Var sérstaklega tekið fram í skýrslu vísindanefndar NAFO að samdráttur í heildarveiði á þessu ári stafaði að verulegu leyti af einhliða ákvörðun Íslendinga um að minnka veiðar sínar.

Meirihlutaniðurstaða varðandi rækjuveiðar var að halda áfram sóknarstýringu sem byggir á úthlutun veiðidaga til hvers lands. Af hálfu Íslands var ítrekuð andstaða við þetta fyrirkomulag þar sem það gæfi ekki kost á að mæta nauðsynlegum veiðitakmörkunum með hagkvæmum hætti. Auk þess hefur framkvæmd sóknarderfisins á Flæmingjagrunni verið afar ótrúverðug. Því var lýst yfir að Ísland myndi í stað sóknarkerfis áfram ákvarða leyfilegan heildarafla íslenskra skipa með einhliða aflamarki. Leyfður heildarafli Íslendinga á þessu ári er 6.800 tonn samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda, en því er spáð að heildarveiði allra þjóða verði á bilinu 20 - 25.000 tonn í ár.

Afstaða Íslands vakti ekki sérstaka andstöðu á fundinum, enda virtist vaxandi skilningur vera á því að veiðistjórnun Íslendinga væri skilvirk.

Tillaga frá Færeyingum um stækkun rækjuveiðisvæðisins, sem Íslendingar studdu, náði ekki fram að ganga.

Eftirlitsmál á NAFO - svæðinu voru mjög til umræðu á fundinum, sérstaklega það fyrirkomulag að hafa eftirlitsmann í hverju skipi. Af Íslands hálfu var bent á að rækjuveiðar á Flæmingjagrunni krefðust ekki svo víðtæks og kostnaðarsams eftirlits. Íslendingar lögðust gegn því að þessu yrði haldið áfram enda gæti kostnaðurinn við eftirlitið leitt til þess að veiðarnar yrðu óarðbærar. Niðurstaða fundarins var engu að síður sú að framlengja núverandi fyrirkomulag á eftirlitinu í eitt ár. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til þess hvort þau uni þessari niðurstöðu.

Á fundinum náðist samkomulag um aðgerðir gegn skipum frá ríkjum sem ekki eru aðilar að NAFO.
Sjávarútvegsráðuneytið
19. september 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta