Ráðstefna haldin í A TOXA á Spáni 17.-19. september 1997.
Ráðstefna haldin í A TOXA á Spáni 17.-19. september 1997
Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra, tók af Íslands hálfu þátt í ráðstefnu sjávarútvegsráðherra sem haldin var í A TOXA á Spáni dagana 17.-19. september. Ráðstefnana er hin þriðja sem haldin hefur verið á þessum stað. Efni ráðstefnunnar var að þessu sinni viðskipti með sjávarafurðir og ábyrg auðlindanýting. Ráðstefnuna sóttu sendinefndir frá um 50 löndum. Í ræðu sinni á ráðstefnunni lagði Þorsteinn m.a. áherslu á að efla þurfi svæðisbundnar fiskveiðistofnanir og gera þær betur færar um að sinna hlutverki sínu. Í þessum efnum skipti skilvirkt skipulag máli og sagði Þorsteinn að það væri meginafstaða Íslands í þessum efnum að einungis þær þjóðir sem hefðu raunverulegra hagsmuna að gæta ættu að koma að ákvarðanatöku varðandi einstaka stofna. Þá lagði Þorsteinn áherslu á afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi og taldi að engin ein aðgerð myndi hafa eins jákvæði áhrif á nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar eins og afnám ríkisstyrkja um heim allan. Taldi hann enga ástæðu til að aðrar reglur ættu að gilda um heimsviðskipti með sjávarafurðir en almennt gilda um vöruviðskipti.
Í lok ráðstefnunnar var samþykkt ályktun þar sem m.a. var lögð áhersla á nauðsyn þess að byggja viðskipti með sjávarafurðir á grundvallarreglum Alþjóðaviðskipta-stofnunarinnar (WTO). Vakin er athygli á þörf samhæfingar milli viðskiptareglna og auðlindastjórnunar en jafnframt bent á að áhyggjuefni sé að farið er að bera á viðskiptahindrunum í skjóli reglna um auðlindanýtingu.
Sjávarútvegsráðuneytið