Sameiginlegur ársfundur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
SAMEIGINLEG FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu
_____________
Nr. 80
Sameiginlegur ársfundur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hófst í dag í Hong Kong. Fundinn sitja Halldór Ásgrímsson, utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherra og fulltrúi Íslands í bankaráði Alþjóðabankans og Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra og varafulltrúi Íslands í ráðinu. Jafnframt sitja fundinn Birgir Ísleifur Gunnarsson, seðlabankastjóri og Halldór J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, fulltrúar Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Í tengslum við ársfundinn eru að venju haldin málþing um margvísleg málefni. Að þessu sinni settu málefni Asíu, m.a. fjármálamarkaða og kínversk efnahagsuppbygging, mikinn svip á málþingin. Einnig fara fram ýmsir fundir á vegum fjármála- og bankastofnana.
Á formlegum setningarfundi í dag ávörpuðu fundinn m.a. Tung Chee-hwa, oddviti Hong Kong búa, Li Peng forsætisráðherra Kína, James D. Wolfensohn, forseti Alþjóðabankans og Michel Camdessus, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Fulltrúi Finnlands í bankaráði Alþjóðabankans mun flytja sameiginlega ræðu Norðurlanda og fylgir hún með hjálagt.
Fundinum lýkur n.k. fimmtudag.
Reykjavík, 23. september 1997