Ársreikningar Íslenska álfélagsins
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/1997
Vegna fréttaflutnings um skattgreiðslur Íslenska álfélagsins h.f. óskar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að taka eftirfarandi fram:
1. Samkvæmt ákvæðum í aðalsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse- Lonza um byggingu og rekstur ÍSAL skipar iðnaðarráðherra ár hvert alþjóðlegt fyrirtæki óháðra löggiltra endurskoðenda til að yfirfara og sannprófa reikningsskil og ársreikninga Íslenska álfélagsins h.f. Slík endurskoðun hefur farið fram árlega frá árinu 1985 og fylgjast fulltrúar Ríkisendurskoðunar með endurskoðuninni. Alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækið Coopers&Lybrand International annast þessa endurskoðun og framkvæma endurskoðendurnir í því sambandi þá athugun á bókum ÍSALs sem þeir kunna að telja nauðsynlega, í samræmi við alþjóðlegar venjur og íslensk lög.
2. Skýrsla Coopers&Lybrand International um endurskoðun á ársreikningi ÍSAL fyrir árið 1996 liggur nú fyrir og er þar staðfest að öll viðskipti ÍSAL og Alusuisse-Lonza hafi verið í fullu samræmi við reglur aðalsamningsins.
26. september 1997