56. fundur Þróunarnefndar Alþjóðabankans
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Nr. 79
Halldór Ásgrímsson, utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherra sat í dag 56. fund Þróunarnefndar Alþjóðabankans. Að þessu sinni var fundað í Hong Kong. Utanríkisráðherra hefur forystu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í nefndinni. Í henni eiga sæti 24 ráðherrar fyrir hönd hátt á annað hundrað ríkja. Nefndin mótar meginstefnu bankans í aðstoð við þróunarlöndin.
Til umræðu á fundinum var m.a. baráttan gegn spillingu; átak til að auka fjárfestingar einkaaðila á sviði orku-, samgöngu- og fjarskiptamála; málefni Alþjóðlegu fjárfestingarábyrgðarstofnunarinnar (MIGA) og sérstakar aðgerðir til að aðstoða skuldugustu þróunarríkin (HIPC, Heavily Indebted Poor Countries Initiative).
Halldór Ásgrímsson lagði af hálfu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna fram yfirlýsingu þar sem fram kemur afstaða þeirra til helstu málefna á dagskrá.
Í málflutningi ráðherra kom m.a. fram, að fagna beri nýrri áherslu í þróunarstarfi bankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í baráttu gegn spillingu. Spilling hefur neikvæð áhrif á hagvöxt og efnahagsþróun almennt. Oftar en ekki verða hinir fátækustu verst fyrir barðinu á henni. Gæði stjórnarfars og magn spillingar tengjast, því spilling dafnar venjulegast þar sem stjórnarfarið er veikt. Ríkisstjórnir bera aðal ábyrgð í baráttunni gegn spillingu, en alþjóðlegt þróunarsamstaf getur lagt sitt af mörkum. Mikilvægt er að þróunarfé styrki aldrei spillingaröfl en sé notað til að auka ábyrgð og gegnsæi í stjórnsýslu.
Utanríkisráðherra lýsti yfir fullum stuðningi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við sérstakt átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila í orkumálum, samgöngu- og fjarskiptakerfum þróunarríkjanna.
Í umfjöllun ráðherra um málefni MIGA kom fram, að nauðsyn beri til að styrkja fjárhagsgrundvöll stofnunarinnar og einnig stefnumótun.
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin styrkja HIPC-átakið heilshugar og hvetja önnur ríki, m.a. helstu iðnríkin og einnig alþjóðastofnanir til að leggja því lið.
Ennfremur var fjallað um stöðu fjármagnsmarkaða í þróunarríkjunum og lýsti utanríkisráðherra yfir stuðningi við aukna samvinnu bankans og sjóðsins á því sviði.
Loks áréttaði ráðherra stuðning sinn við stefnu stjórnar bankans en hún miðar að því að bæta skipulag hans og þannig auka árangur þróunarstarfsins.
Meðfylgjandi er yfirlýsing utanríkisráðherra.
Reykjvík, 22. september 1997