Hoppa yfir valmynd
24. október 1997 Matvælaráðuneytið

Afmælisráðstefna Orkustofnunar

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 21/1997



Í ræðu sinni við upphaf afmælisráðstefnu Orkustofnunar í morgun; "Orkuvinnsla í sátt við umhverfið", sagði Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra meðal annars:

"Búast má við að í framtíðinni verði litið svo á að fjórða tímabilið (í nýtingu á orkulindum landsmanna) hafi haldið innreið sína um miðjan þennan áratug. Það kemur í fyrsta lagi til af stóraukinni raforkuframleiðslu í kjölfar þriggja nýrra stóriðjusamninga og í öðru lagi af framtíðarsýn þeirri í raforkumálum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi á þessu þingi.

Í þessari framtíðarsýn er mörkuð stefna til langs tíma og vel afmarkaðir áfangar skilgreindir, sem taka mið af þróun í nágrannaríkjunum en jafnframt íslenskum aðstæðum. Í stefnumörkuninni er kveðið á um að sköpuð verði skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Í upphafi skuli unnið að aðskilnaði vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku innan orkufyrirtækjanna, endurskipulagningu á meginflutningskerfi raforkunnar og breyttu fyrirkomulagi á orkusölu til stórra notenda. Í kjölfarið verði unnið að því að koma á samkeppni í viðskiptum með raforku."

Um þá umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu að undanförnu og fjallar um samspil aukinnar nýtingar orkulindanna til atvinnuuppbyggingar og umhverfismála, sagði ráðherra m.a.:

"Á síðustu misserum hefur það glögglega komið í ljós að það sýnist sitt hverjum þegar kemur að nýtingu orkulindanna til atvinnuuppbyggingar. Ég hef áður lagt á það áherslu og vil ítreka það hér, að í þeirri umræðu er mikilvægt að menn hafi sannleikann að leiðarljósi en byggi ekki málflutning sinn á sleggjudómum og upphrópunum.

Umhverfismál eru ekki bundin við landamæri, þau eru hnattræn og það skyldum við ætíð hafa í huga við þessa umræðu. Við skulum líka vera þess meðvituð að umhverfismál og efnahagsmál eru nátengd og verða tæpast sundur slitin, um það vitnar glöggt sú staðreynd að flestar stærstu fjármálastofnanir heims horfa sérstaklega til þeirra í starfsemi sinni."

Ráðherra vék einnig að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykktur var á Ríó-ráðstefnunni 1992 og undirbúningi fyrir þing aðildarríkja samningsins, sem fram fer í Kyoto í Japan í desember:

"Lokamarkmið þess samnings (Ríó-samningsins) er að koma í veg fyrir hættulegar breytingar á loftslaginu af mannavöldum. Það er í fullu samræmi við ákvæði samningsins að stuðla að því að orkufrek framleiðsla iðnvarnings fari fram þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er minnst."

"Í því sambandi er rétt að benda á að koldíoxíðlosun frá einu 180.000 tonna álveri, sem nýtir raforku framleidda með jarðefnaeldsneyti, jafngildir allri losun Íslendinga og raunar ríflega það! Slíkt hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvort ekki sé skynsamlegt að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar í þessum tilgangi."

"Þannig skiptir ekki máli hvar losunin á sér stað, heldur hversu mikil hún er. Í ljósi þessa lokamarkmiðs loftslagssamningsins og þess hve brennsla jarðefnaeldsneytis á stóran þátt í losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, ber að stuðla að því að orkufrek framleiðsla iðnaðarvöru fari fram í ríkjum þar sem hrein orka er nýtt til framleiðslunnar. Annað væri rökleysa."

"Niðurstaða þeirra samningaviðræðna sem nú standa yfir í Bonn og á að ljúka í Kyoto í desember, á ekki og má ekki koma í veg fyrir að endurnýjanlegar orkulindir séu nýttar til efnahagslegra framfara, hvorki á Íslandi eða í öðrum löndum."

"Að nýta sér rammasamning Sameinuðu þjóðanna til að vinna gegn nýtingu endurnýjanlegra orkulinda væri misnotkun á samningnum og markmiðum hans. Í hve miklum mæli við viljum nýta orkulindirnar hlýtur þó að verulegu leyti að ráðast af því hvort virkjanirnar ganga gegn annarri nýtingu landsins, svo sem vegna landbúnaðar, veiði og ferðamennsku. Þegar slíkir hagsmunir rekast á hlýtur arðsemi nýtingar að skipta miklu máli en ennfremur sjónarmið náttúruverndar."

 

24. október 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta