Hoppa yfir valmynd
26. október 1997 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 18/1997. Tillögur til br. á frumvarpi um lífeyrissjóðaaðild.

Nefnd fjármálaráðherra um lífeyrismál hefur lokið störfum. Nefndin náði samkomulagi um tillögur til breytinga á því frumvarpi sem var til umfjöllunar á Alþingi sl. vor. Í framhaldi af niðurstöðu nefndarstarfsins mun fjármálaráðherra leggja fram frumvarp um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefnt er að afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi fyrir áramót.

Í meðfylgjandi skilabréfi formanns nefndarinnar er gerð grein fyrir meginatriðum breytingatillagnanna. Ákvæði um lífeyrissjóðsaðild er breytt, en sú meginregla gildir áfram að aðild skuli ákveðin á grundvelli frjálsra samninga. Lámgarkstryggingavernd lífeyrissjóðs er aukin, en mismunandi útfærslumöguleikum haldið opnum. Ákveðin sveigjanleiki í lífeyrissjóðakerfinu er þar með tryggður, eins og að var stefnt sl. vor.

Tvö ný veigamikil atriði eru tekin inn í frumvarpið. Annað nýmælið heimilar sjóðfélögum að yfirfæra ellilífeyrisréttindi til maka sinna, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hitt nýmælið gerir ráð fyrir auknu eftirliti með því að allir á vinnumarkaði taki þátt í skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Niðurstaða nefndarstarfsins gerir ráð fyrir að heimildir einstaklinga til skattafrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda verði rýmkaðar. Þetta verði til að efla lífeyriskerfið og auka þjóðhagslegan sparnað.

 

Fjármálaráðuneytinu, 26. október 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta