Hoppa yfir valmynd
29. október 1997 Matvælaráðuneytið

Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 29.10.97

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu


Í gær var í Osló undirritað samkomulag milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1998. Samkomulagið er eins og það sem gert var milli þessara aðila í desember 1996 um veiðar á þessu ári nema heildaraflinn er lækkaður.

Með samningi sömu aðila í desember sl. skiptu þeir á milli sín 1.486.000 lestum. Samkvæmt samkomulaginu nú verður heildarafli aðila 1.289.600 lestir og skiptist þannig að í hlut Íslands koma 202.000 lestir, í hlut Færeyja 71.000 lestir, í hlut Noregs 741.000 lestir, í hlut Rússlands 166.600 lestir og í hlut Evrópusambandsins 109.000 lestir. Lækkun heildarafla stafar af lélegri nýliðun stofnsins frá árinu 1993.

Á yfirstandandi ári námu aflaheimildir Íslands 233.000 lestum en þar af hafa veiðst um 220.000 lestir. Aflaheimildir Íslands verða því rúmlega 13% minni á árinu 1998 en á þessu ári. Er þessi lækkun á aflaheimildum Íslands í samræmi við lækkun heildaraflans.

Aðilar hafa jafnframt komið sér saman um í hvaða mæli þeir veita hver öðrum aðgang að lögsögu sinni til síldveiða á árinu 1998. Íslensk skip mega með sama hætti og á þessu ári veiða allan sinn hlut í lögsögu Færeyja og færeysk skip allan sinn hlut í lögsögu Íslands. Eins og í ár mega íslensk skip veiða sinn hluta í Jan Mayen-lögsögunni og norsk skip veiða sem svarar tveimur þriðju hlutum af kvóta Íslands í íslenskri lögsögu. Íslensk skip mega veiða 9.000 lestir í lögsögu Noregs og norsk skip sama magn í íslenskri lögsögu. Er hér um 1.000 lesta lækkun að ræða á milli ára í samræmi við lækkun heildaraflans. Loks fá rússnesk skip heimild til að veiða 5.600 lestir á takmörkuðu svæði innan íslenskrar lögsögu í stað 6.500 lesta á þessu ári.

Sendinefndirnar voru sammála um nauðsyn þess að þróa framtíðarnýtingarstefnu fyrir síldina til að tryggja skynsamlega nýtingu stofnsins þar sem höfuðmarkmið væri að draga úr sveiflum í stofnstærð og afla. Í þessu skyni var ákveðið að setja á fót vinnuhóp til að vinna að tillögugerð að höfðu nánu samráði við sérfræðinga Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Er þess vænst að tillögur um nýtingarstefnu liggi fyrir samráðsfundi landanna sem haldinn verður í Reykjavík að ári liðnu.

Utanríkisráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið

29. október 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum