Uppsögn loðnusamnings
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu
Ákveðið hefur verið af Íslands hálfu að segja upp samningi milli Íslands, Noregs og Grænlands um loðnuveiðar. Samningurinn var gerður vorið 1994 og var hann framhald á hliðstæðum samningum um stjórnun loðnuveiðanna. Samningur um þetta efni var fyrst gerður milli Íslands og Noregs árið 1980 en á árinu 1989 var gerður samningur sem Grænland átti einnig aðild að.
Gildandi samningur sem er til fjögurra vertíða hefði framlengst um tvær vertíðir ef honum hefði ekki verið sagt upp fyrir lok þessa mánaðar.
Ástæða þess að samningnum er sagt upp er að þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar við samningsgerðina á sínum tíma hafa um margt breyst. Vegur þar þyngst að útbreiðsla loðnunnar hefur breyst. Því þykir eðlilegt að aðilar taki á ný upp viðræður og fjalli um stjórn loðnuveiðanna út frá breyttum aðstæðum.
Það er ósk íslenskra stjórnvalda að viðræður aðilanna þriggja geti hafist sem allra fyrst og að þær leiði til að þeir komi sér saman um reglur um nýtingu loðnustofnsins tímanlega fyrir upphaf næstu loðnuvertíðar á sumri komanda. Jákvætt samstarf landanna og eðlilegt samráð um þróun mála er mikilvægt til að tryggja farsæla veiðistjórn nú sem hingað til.
Sendiráðum Íslands í Osló og Kaupmannahöfn hefur verið falið að tilkynna utanríkisráðuneytum Noregs og Danmerkur um uppsögn samningsins á morgun.
Utanríkisráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið
30. október 1997
30. október 1997