Heimsókn Gerhard Schröder, forsætisráðherra Neðra-Saxlands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Gerhard Schröder, forsætisráðherra Neðra-Saxlands og forseti þýska sambandsráðsins, kemur til Íslands í opinbera heimsókn í boði Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra dagana 19. til 21. nóvember n.k. Með honum í för eru um þrjátíu manns, fylgdarlið, viðskiptasendinefnd og blaðamenn.
Hefst heimsóknin formlega á Akureyri og tekur Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á móti honum á Akureyrarflugvelli ásamt móttökunefnd Akureyrar. Gerhard Schröder verður gestur bæjarstjórnar Akureyrar fyrsta dag heimsóknarinnar, en heldur til Reykjavíkur á miðvikudagskvöld að afloknum kvöldverði bæjarstjórnar.
Í Reykjavík mun hann eiga formlegar viðræður við utanríkisráðherra, þiggja hádegisverðarboð forsætisráðherra og eiga fund með sjávarútvegsráðherra. Forseti Íslands býður honum og fylgdarliði hans til Bessastaða. Haldið verður til Hafnarfjarðar í boði bæjarstjórnar og ýmis fyrirtæki skoðuð þar og á Suðurnesjum.
Heimsókninni lýkur með því að Íslensk-þýska verslunarráðið og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins efna til hádegisverðar þar sem Gerhard Schröder flytur fyrirlestur.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 18. nóvember 1997