Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

Samskipti Íslands og Kína

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 95
Að gefnu tilefni vill utanríkisráðuneytið taka fram, að nýafstaðnar viðræður við utanríkisráðuneyti Alþýðulýðveldisins Kína hafa staðfest að Kínverjar og Íslendingar eru sammála um, að samskipti ríkjanna hvíli sem áður á sameiginlegri yfirlýsingu Kína og Íslands um stjórnmálatengsl frá 1971.
Í þeirri yfirlýsingu kemur fram að í samræmi við meginreglur virðingar á gagnkvæmu fullveldi, landamærafriðhelgi, afskiptaleysi af innanríkismálum hvors annars, svo og jafnrétti og gagnkvæmum hag, hafi ríkisstjórnir Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína orðið ásáttar um gagnkvæma viðurkenningu og stofnun stjórnmálasambands. Í yfirlýsingunni segir enn fremur:
,, Kínverska ríkisstjórnin lýsir yfir því á ný, að Taiwan sé óaðskiljanlegur hluti landssvæðis Alþýðulýðveldisins Kína, og er ríkisstjórn Íslands sú yfirlýsing kínversku ríkisstjórnarinnar kunn.
Ríkisstjórn Íslands viðurkennir ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins Kína sem hina einu löglegu ríkisstjórn Kína."
Af þessu leiðir, að Ísland viðurkennir eitt og óskipt Kína, þ.e. að ríkisstjórnin í Beijing sé eina löglega ríkisstjórn Kína, og Ísland muni því ekki eiga opinber samskipti við Taiwan.
Í þessum viðræðum hefur Kína ítrekað þá stefnu sína um að Kína hafi ekkert á móti samskiptum einkaaðila á Íslandi og á Taiwan á sviði ferðamála og viðskipta.

Reykjavík, 21. nóvember 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta