Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 1997 Matvælaráðuneytið

Ársfundur NEAFC í London dagana 19.-21.nóv. 1997

FRÉTTATILKYNNING
frá sjávarútvegsráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu




Ársfundur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) fór fram í London dagana 19.-21. þ.m.

Á fundinum var tekin ákvörðun um veiðar á úthafskarfa á næsta ári. Íslenskum fiskiskipum verður heimilt að veiða 45.000 lestir af úthafskarfa á árinu 1998 eða sama magn og á yfirstandandi ári. Einnig var samþykkt veiðifyrirkomulag á norsk-íslenskri síld utan lögsögu aðildarríkja NEAFC í samræmi við síldarsamning fimm aðila frá 28. október sl. Er þetta í samræmi við það fyrirkomulag sem gildir á þessu ári.

Ákveðið var að halda sérstakan aukafund NEAFC næsta sumar. Á þeim fundi er gert ráð fyrir að tekin verði ákvörðun um eftirlit með fiskveiðum sem fara fram á þeim hafsvæðum sem falla undir NEAFC-sáttmálann. Er gert ráð fyrir að reglur um veiðieftirlit komi til framkvæmda þann 1. janúar 1999. Á aukafundinum verður jafnframt fjallað um framtíðarskipulag skrifstofuhalds stofnunarinnar og væntanlega mun verða tekin ákvörðun um ráðningu á framkvæmdastjóra fyrir NEAFC. Loks var ákveðið að setja á fót vinnuhóp til að fjalla um stjórnun veiða á makríl og kolmunna en hingað til hafa veiðar úr þessum stofnum verið frjálsar utan lögsögu ríkja.

Sjávarútvegsráðuneytið
Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 24.11. 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum