Áttundi fundur EES-ráðsins í Brussel
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Í dag var haldinn áttundi fundur EES-ráðsins í Brussel. Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar EFTA/EES-ríkjanna og aðildarríkja ESB ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd.
Á fundinum var EES-samningurinn til umræðu og var það samdóma álit fundarmanna að framkvæmd hans gengi vel. Einnig var m.a. fjallað um stækkun ESB og niðurstöður leiðtogafundar ESB í júní sl., þar með talið Schengen-samstarfið.
Í tengslum við ráðsfundinn var haldinn sérstakur fundur ráðherra EES-ríkjanna þar sem skipst var á skoðunum um pólitísk málefni. Á þeim fundi var einkum rætt um Rússland, friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs og fyrrum Júgóslavíu. Hafði utanríkisráðherra framsögu um Rússland.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 25. nóvember 1997