Hoppa yfir valmynd
1. desember 1997 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um úrvinnslu léttmálma

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr.22/1997


Allar götur frá því álframleiðsla hófst hér á landi hefur ríkt áhugi á að koma á fót úrvinnsluiðnaði er byggði á álframleiðslunni. Nú þegar ljóst er að álframleiðsla mun aukast hér á næstu árum og mögulegt er að framleiðsla hefjist á magnesíum, hefur þessi áhugi enn aukist. Því skipaði iðnaðarráðherra nefnd, þann 5. nóvember 1996 til að skila hugmyndum um hvernig hið opinbera gæti stuðlað að aukinni vinnslu úr stóriðjuafurðum hér á landi.

Nefndin hefur nú lokið störfum og kemst m.a. að því að framleiðsla úr léttmálmum fer ört vaxandi í mörgum greinum, t.d. byggingariðnaði, skipasmíðum, bílaiðnaði og umbúðaiðnaði, auk þess sem notkun léttmálma eykst mjög í hvers kyns iðnhönnun. Aðrar helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

    • Brýnt er að Íslendingar gefi ofangreindri þróun gaum og treysti nauðsynlega innviði (infrastructure) til að úrvinnslufyrirtæki geti dafnað. Traustir innviðir í atvinnugrein eru forsenda fjárfestingar.
    • Í því skyni verði komið á föstum samráðsvettvangi - Málmgarði - með aðild þeirra sem mesta þekkingu hafa á léttmálmum og úrvinnslu þeirra. Hlutverk Málmgarðs verði m.a. upplýsingasöfnun vegna léttmálma, gerð tillagna um menntun á framhalds- og háskólastigi ofl.
    • Nefndin telur menntun á þessu sviði hafa verið ábótavant og gerir tillögur um úrbætur.
    • Nefndin telur einnig að stjórnvöld ættu að skilgreina úrvinnslu léttmálma sem eitt af áhersluatriðum í íslenskum atvinnurekstri og að með samstilltu átaki geti Íslendingar látið að sér kveða á þessu sviði. Til að svo geti orðið þurfi aukið fé til rannsókna, menntunar og kynningar auk samræmdra aðgerða við leit að fjárfestum og samstarfsaðilum.
    • Nefndin bendir á að þótt úrvinnsla áls sé ekki stunduð í stórum stíl hér á landi, eru hér starfandi úrvinnslufyrirtæki sem búa yfir dýrmætri þekkingu og reynslu. M.a. með þróunarsamningum við slík fyrirtæki geti stjórnvöld veitt þeim mikilvægan stuðning.
    • Nefndin telur að ef hafin verður framleiðsla á magnesíum hér á landi, muni möguleikar á úrvinnslu léttmálma stóraukast, þar eð vinnsla þess við verksmiðjudyr er mjög hagkvæm. Að auki er ál- og magnesíumblanda mikið notuð í úrvinnslu.

Reykjavík, 1. desember 1997



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum