Stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 100
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu utanríkisráðherra um að ráðast í fyrsta áfanga stækkunar flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkur-flugvelli og að aflað verði nauðsynlegra heimilda til lántöku vegna þeirrar framkvæmdar.
Ljóst er að flugstöðin annar ekki þeim fjölda farþega og flugvéla sem nú fer um hana. Jafnframt er ljóst að álag mun aukast verulega á næstu árum. Núverandi afkastageta flugstöðvarinnar miðast við eina milljón farþega á ári og það að allt að átta flugvélar geti verið samtímis á flugvélastæðum stöðvarinnar. Á árinu 1996 fór farþegafjöldi í fyrsta sinn yfir eina milljón og síðastliðið sumar voru ekki nægilega mörg stæði á annatímum.
Fyrirsjáanleg aukning á umferð um flugstöðina á næstu árum gerir stækkun hennar mjög aðkallandi. Áætlað er að árið 2000 verði heildarfjöldi farþega orðin um 1,4 milljónir á ári og um 2,2 milljónir árið 2010. Einnig er áætlað að fjöldi flugvéla sem þurfi stæði við flugstöðina á annatímum verði 13 vélar árið 2000 og 20 vélar árið 2010.
Þjóðhagslegur skaði hefði hlotist af óbreyttu ástandi og hefði leitt til alvarlegrar stöðnunar í flugrekstri og ferðaþjónustu. Það hefði skaðað starfsemi þeirra fjölmörgu fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklinga sem hafa tekjur af ferðaþjónustu.
Fjárhagslegur grundvöllur stækkunar er tryggður, m.a. vegna aukinnar umferðar og árangurs af endurskipulagningu verslunar- og þjónusturekstrar innan flugstöðvarinnar sem tekur gildi nú um áramót. Áætlað er að flugstöðin muni fyrir árið 2020 greiða upp að fullu eldri áhvílandi lán, svo og ný lán vegna framkvæmda fram til ársins 2010.Reykjavík, 5. desember 1997