Utanríkisráðherrafundir á vegum NATO
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Í dag, 17. desember 1997 voru haldnir í Brussel utanríkisráðherrafundir Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins og Samstarfsráðs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sat fundina fyrir Íslands hönd. Á fundunum var m.a. fjallað um tilhögun framtíðarsamstarfs aðila og rætt um málefni Bosníu-Hersegóvínu.
Á fundi Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins var jafnframt ákveðið að stofna samráðsskrifstofu um viðbrögð við náttúruhamförum sem ætlað er að meta hættu og þörf á aðstoð. Þá var ákveðið að stofna umgjörð um sameiginlegar viðbragðssveitir til að bregðast við náttúruhamförum og koma til aðstoðar. Ekki verður um fastaherlið að ræða heldur tilnefna ríkin hersveitir sem koma saman eftir því sem þörf krefur í hverju tilviki fyrir sig.
Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherra Kanada, Lloyd Axworthy og aðstoðarutanríkisráðherra Bretlands, Anthony Lloyd. Á fundi sínum með Lloyd Axworthy ræddi ráðherra möguleikann á fríverslunarsamningi milli Íslands og Kanada annars vegar og Fríverslunarbandalags Evrópu (EFTA) og Kanada hins vegar. Jafnframt óskaði hann Kanadamönnum til hamingju með þátt þeirra í baráttunni gegn jarðsprengjum sem beint er gegn fólki. Á fundi sínum með Anthony Lloyd ræddi utanríkisráðherra einkum um fyrirkomulag samvinnu Evrópusambandsins og EFTA ríkjanna innan Evrópska efnahagssvæðisins á fyrri helmingi næsta árs, í formennskutíð Íslands hjá EFTA og Bretlands hjá Evrópusambandinu.
Hjálagt fylgja samantektir formanna vegna funda Evró-Atlantshafssamvinnuráðsins og Samstarfsráðs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands.
- Reykjavík, 17. desember 1997