Hoppa yfir valmynd
19. desember 1997 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 22/1997. Staðgreiðsla opinberra gjalda 1998.

Fjármálaráðuneytið ákveður staðgreiðsluhlutfall hvers árs og er það samtala af tekjuskattshlutfalli skv. lögum um tekjuskatt og eignarskatt og útsvarshlutfalli eins og það er að meðaltali skv. ákvörðunum sveitarstjórna. Tekjuskattshlutfall á árinu 1998 verður 27,41%. Meðalútsvar á árinu 1998 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarstjórna verður 11,61%. Staðgreiðsluhlutfall á árinu 1998 verður því 39,02%. Staðgreiðsluhlutfall yfirstandandi árs er 40,88%. Lækkunin milli ára er 1,86%.

Samkvæmt lögum lækkar tekjuskattur til ríkisins úr 29,31% í 27,41% eða um 1,90% um næstu áramót og hefur því lækkað um 3,0% frá upphafi þessa árs.

Meðalútsvar sveitarfélaga 1997 var 11,57%, en fer á árinu 1998 í 11,61%. Hækkun útsvars í staðgreiðslu nemur því 0,04%. Hámarksútsvar sveitarfélaga samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga hækkar úr 11,99% í 12,04% og lágmarksútsvar hækkar úr 11,19% í 11,24%. Breytingar á hámarki og lágmarki útsvars voru gerðar vegna tilflutnings grunnskóla til sveitarfélag vegna óvissu um kostnað og mismunandi tekjuþarfa sveitarfélaga. Voru þær alls 0,1%, sem að koma til framkvæmda að jöfnu á yfirstanadandi ári og því næsta.

Sveitarfélögin geta ákveðið útsvar fyrir árið 1998 á bilinu 11,24% til 12,04%. Af 165 sveitarfélögum nota 84 hámarkið en 69 sveitarfélög eru með útsvar frá 11,60% og upp að hámarkinu. 12 sveitarfélög eru með útsvar lægra en 11,60%, þar af eru 9 sveitarfélög með lágmarksútsvar.

Áætlað er að á árinu 1998 innheimtist um 57 milljarðar króna fyrir ríki og sveitarfélög með staðgreiðslu opinberra gjalda en tekjur þeirra af tekjuskatti og útsvari verði alls um 58 milljarðar króna. Þar af renna um 33 milljarðar króna (57%) til sveitarfélaga en til ríkisins um 25 milljarðar króna (42%) til ríkissjóðs. Þar af er gert ráð fyrir að 8,3 milljarðar króna (14%) fari í barnabætur og vaxtabætur en 16,7 milljarðar króna (29%) renni til almennra útgjalda ríkissjóðs.

 

Fjármálaráðuneytinu, 19. desember 1997.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta