Hoppa yfir valmynd
30. desember 1997 Matvælaráðuneytið

Hækkun gjaldskrár Landsvirkjunar

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 25/1997




Í tilefni af gagnrýni Vinnuveitendasambands Íslands á 1,7% gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar nú um áramótin vill iðnaðarráðuneytið taka fram að þessi hækkun er í fullu samræmi við stefnu eigenda fyrirtækisins og því telur ráðuneytið sér ekki fært að beita sér fyrir afturköllun umræddrar hækkunar.

Í þessu sambandi má geta að ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði um 50 milljónir króna til að tryggja að raforkuverð til húshitunar haldist óbreytt á árinu 1998 þrátt fyrir gjaldskrárhækkanir Landsvirkjunar og RARIK. Þá hefur Reykjavíkurborg ákveðið að hækka ekki raforkuverð til notenda þrátt fyrir gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar.

Stefnumörkun eigenda Landsvirkjunar, sem staðfest var með samkomulagi þeirra frá 28. október 1996, felur í sér að rafmagnsverð lækki um 20-30% að raungildi á árunum 2001-2010. Þetta mun bæta hag heimila og fyrirtækja í landinu. Rafmagnsverð til heimila og fyrirtækja hér á landi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Líkur eru á að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja muni enn batna því horfur eru á hækkandi rafmagnsverði í samkeppnislöndum.

Næstu þrjú árin gera eigendur Landsvirkjunar hins vegar ráð fyrir að gjaldskrá fyrirtækisins haldist óbreytt að raungildi. Landsvirkjun hefur við gjaldskrárbreytingar einkum tekið mið af byggingarvísitölu þar eð sú vísitala hefur endurspeglað kostnað Landsvirkjunar betur en neysluverðsvísitalan. Hins vegar hefur gjaldskrá Landsvirkjunar hækkað mun minna en byggingarvísitalan á síðustu þremur árum og því er rangt að gera því skóna að bein tenging sé á milli gjaldskrár Landsvirkjunar og byggingarvísitölu. Gjaldskráin hefur á þessum árum haldist óbreytt að raungildi á mælikvarða neysluverðsvísitölunnar.

VSÍ hefur í mörgum bréfum til ráðuneytisins bent á annmarka þess að veitufyrirtæki noti byggingarvísitölu sem viðmið fyrir gjaldskrárhækkanir. Síðasta sumar gerði ráðuneytið VSÍ grein fyrir að veitufyrirtæki tækju í fæstum tilfellum mið af byggingarvísitölu við ákvörðun gjaldskrár, enda hefur fjárhagur flestra veitna vænkast á síðustu árum og þær því betur í stakk búnar að lækka raunverð rafmagns og hita. Flestar veitur hafa hækkað gjaldskrá sína minna en nemur hækkun byggingarvísitölu á sama tímabili. Þannig hækkaði verð á rafmagni og hita í neysluverðsvísitölu um 2,4% á þremur árum fram til síðasta sumars á meðan neysluverðsvísitalan í heild hækkaði um 5,6% á sama tímabili.

Reykjavík, 30. desember 1997.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum