Ísland með mestan "vistfræðilegan afgang" allra þjóða
Engin þjóð á jafn mikinn vistfræðilegan auð (ecological capacity) á íbúa og við Íslendingar, skv. nýrri skýrslu sem unnin er af alþjóðlegri rannsóknastofnun um umhverfismál. Þrátt fyrir mikla neyslu nýta Íslendingar mun minna af náttúrugæðum en auðævi landsins og fiskveiðilögsögunnar standa undir og er Ísland eitt tiltölulega fárra ríkja sem býr yfir "vistfræðilegum afgangi" (ecological remainder) – reyndar er ekkert ríki sem kemur jafn vel út og Ísland í slíkum samanburði. Í sams konar skýrslu sem birt var fyrir ári síðan og hlaut nokkra umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum, komst stofnunin hins vegar að þveröfugri niðurstöðu, þ.e. að ekkert land ofnýtti náttúrugæði jafn mikið og Ísland, sem átti þar með heimsmet í "vistfræðilegum hallarekstri" (ecological deficit).
Í kjölfar þeirrar skýrslu og fréttaflutnings af niðurstöðum hennar fór umhverfisráðuneytið ofan í saumana á útreikningum hennar og komst m.a. að því að auðlindum hafsins var skipt jafnt á milli allra jarðarbúa (þ.e. hver Svisslendingur var talinn eiga jafn mikla hlutdeild í auðævum hafsins og hver Íslendingur) á meðan frjósemi og afrakstrargeta lands var nákvæmlega metin. Þar með var verðmætasta náttúruauðlind Íslendinga, fiskistofnarnir í lögsögu Íslands, í raun að engu metin.
Umhverfisráðuneytið sendi athugasemdir og ábendingar varðandi þetta til Mathis Wackernagel, eins höfunda skýrslunnar og í kjölfar þess ákváðu höfundarnir að endurskoða aðferðafræði sína með tilliti til auðlinda hafsins og ákváðu að skipta þeim eftir aflahlutdeild ríkja.
Eftir sem áður er neysla Íslendinga af gæðum náttúrunnar (ecological footprint) með því mesta sem gerist, eða sem svarar um 7,4 hekturum af landi á íbúa skv. aðferðafræði skýrsluhöfunda. Af þeim 52 ríkjum sem athugunin nær til eru það aðeins íbúar fjögurra ríkja (Bandaríkjanna, Ástralíu, Kanada og Nýja Sjálands) sem eru þurftafrekari á gæði jarðar. Ef einungis væri tekið tillit til gæða landsins stæði það engan veginn undir slíkri neyslu, en þegar hlutdeild Íslendinga í auðævum hafsins er reiknað inn í dæmið snýst það við, þannig að náttúruauður okkar telst um þrefalt meiri en það sem af er tekið til innanlandsneyslu. Einungis Nýja Sjáland telst búa við svipaðar aðstæður, en Ísland er þó efst á lista yfir ríki sem skila "vistfræðilegum afgangi" í heimsbúskapinn. Hong Kong og Singapore teljast vera rekin með mestum "vistfræðilegum halla", en á hæla þeirra koma Belgía, Holland og Bandaríkin. Í heild komast höfundar skýrslunnar að því að íbúar hinna 52 ríkja sem skoðuð voru ofnýti gæði jarðar og að neysla þeirra sé um 35% meiri en vistkerfi þeirra geti staðið undir ef litið er til langs tíma.
Skýrslan Ecological Footprints of Nations var upphaflega samin af stofnunni Centre for Sustainability Studies fyrir 5 ára afmæli umhverfisráðstefnunnar í Ríó í fyrra, að tilstuðlan alþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna Earth Council. Vakti hún nokkra athygli, enda var hún tilraun til þess að meta á vísindalegan hátt hvort nýting náttúrugæða gæti talist sjálfbær, eða hvort við tækjum af höfuðstól náttúrunnar til að standa undir neyslu okkar. Ný útgáfa skýrslunnar er nýlega komin út (hún er m.a. á Veraldarvefnum: http://www.ecouncil.ac.cr/rio/focus/report/english/footprint/) auk þess sem hún mun birtast í tímaritinu Ecological Economics.
Fréttatilkynning nr. 2/1998
Umhverfisráðuneytið