Nr. 009, 28. janúar 1998: Tölvupóstsendingar til ráðuneytisins og vefsetur
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Utanríkisráðuneytið vill vekja athygli á því að einstaklingar, fyrirtæki og fjölmiðlar geta sent erindi og fyrirspurnir til ráðuneytisins og sendiráðanna í tölvupósti. Netfang ráðuneytisins er [email protected].
Utanríkisráðuneytið hefur opnað vefsetur á vefnum (Internetinu), sem hefur að geyma margvíslegar upplýsingar um utanríkismál, erlend samskipti, sendiráð Íslands, alþjóðastofnanir og margt fleira skylt efni á sviði alþjóðastjórnmála, viðskipta- og menningarmála. Allur upphaflegi EES-samningurinn hefur verið settur á vefinn á íslensku og er unnið að því að setja inn nýjustu breytingar. Efnið á vefsetrinu er yfir 30.000 blaðsíður í brotinu A-4. Þar með er vefsetrið með þeim stærstu á Íslandi sem eru opin almenningi. Veffangið er www.utn.stjr.is.
Opnun vefseturs utanríkisráðuneytisins er liður í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, sem var samþykkt í október 1996. Aðgangur að EES-samningnum hefur verið opinn síðan í byrjun nóvember s.l. Stofnað hefur verið sérstakt EES-vefsetur (www.ees.is) með margvíslegum upplýsingum um EES-samninginn og framkvæmd hans.
Stefnt er að því að sendiráð Íslands, fastanefndir og undirstofnanir ráðuneytisins komi upp heimasíðum á vefnum til þess að dreifa upplýsingum og auðvelda samskipti við einstaklinga og fyrirtæki. Fyrsta heimasíðan á vegum ráðuneytisins var opnuð hjá sendiráði Íslands í Washington árið 1995 (www.iceland.org). Sendiráðið í Bonn opnaði heimasíðu á s.l. ári (www.geysir.com/Botschaft). Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur opnað heimasíðu (www.utn.stjr.is/ees), svo og Þróunarsamvinnustofnun Íslands (www.utn.stjr.is/iceida).
Meðal þess efnis sem er á vefsetri utanríkisráðuneytisins eru fréttatilkynningar og ræður sem hafa verið fluttar fyrir Íslands hönd. Fréttatilkynningar eru birtar á vefnum áður en þær eru sendar út með öðrum hætti. Á vefsetrinu eru auk þess upplýsingar um sendiráð Íslands, fastanefndir, ræðisskrifstofur, erlend sendiráð, helstu samskiptalönd, alþjóðastofnanir sem Ísland er aðili að, upplýsingar fyrir ferðamenn, viðskiptatölur og menningarsamskipti. Ráðuneytið ráðgerir að auka fjölbreytni efnis á vefsetrinu á næstu misserum.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 28. janúar 1998