Hoppa yfir valmynd
2. mars 1998 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Starf að loknu síðasta samræmda prófi - mars 1998

Starf að loknu síðasta samræmda prófi


Til skólastjóra, foreldraráða og félagsmiðstöðva


Eins og yður er kunnugt líður senn að samræmdum lokaprófum í 10. bekk grunnskóla en þau hefjast 22. apríl nk. og lýkur þriðjudaginn 28. apríl.

Stjórn Samtaka félagsmiðstöðva hefur sent menntamálaráðherra erindi þar sem vakin er athygli á nauðsyn þess að nemendur sem þreyta prófin hafi eitthvað ákveðið fyrir stafni að loknu síðasta prófi ekki síst til þess að koma í veg fyrir ólæti eða óæskilegar samkomur að prófum loknum.

Menntamálaráðuneytið vill hér með hvetja stjórnendur skóla, þar sem 10. bekkur er starfræktur, til að skipuleggja strax starf að loknu síðasta samræmda prófi til að koma í veg fyrir óæskilegt atferli nemenda. Má nefna sem dæmi að skólar hafa hagað skólaferðalagi 10. bekkjar þannig að það hefjist daginn sem prófi lýkur. Félagsmiðstöðvar eru einnig almennt vel í stakk búnar síðdegis til að skipuleggja dagskrá í samvinnu við unglinga, foreldra og skóla.

Ráðuneytið hvetur skólastjóra, foreldraráð og félagsmiðstöðvar til að skipuleggja sameiginlega dagskrá fyrir nemendur sama dag og síðasta samræmda prófi lýkur. Mikilvægt er einnig að höfða til ábyrgðar nemendanna sjálfra og hafa þá með í ráðum eftir því sem frekast er kostur.



Reykjavík, 17. mars, 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum