Hoppa yfir valmynd
4. mars 1998 Matvælaráðuneytið

Starfslok nefndar. 04.03.98

Fréttatilkynning


Í dag lauk störfum nefnd sjávarútvegsráðherra skipaði þann 11. febrúar sl. til að gera tillögur er beindust einkum að því að koma í veg fyrir að viðskipti með sjávarafla milli skyldra aðila og viðskipti með aflaheimildir hefðu óeðlileg áhrif á skiptakjör sjómanna.

Nefndin leggur til að sett verði á stofn Verðlagsstofa skiptaverðs er hafi það hlutverk að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut. Stofunni yrði falið að afla ítarlegra gagna um fiskverð og vinna úr þeim upplýsingum. Ef fiskverð við uppgjör á aflahlut sjómanna víkur í verulegum atriðum frá því sem algengt er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landssvæði er Verðlagsstofu ætlað að skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Samkvæmt tillögum nefndarinnar mun málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni, í öllum meginatriðum, fylgja ákvæðum gildandi laga.

Jafnframt leggur nefndin til að komið verði á opnum tilboðsmarkaði fyrir aflamark - kvótaþingi. Er gert ráð fyrir að öll viðskipti með aflamark fari um kvótaþingið en áfram yrði þó hægt að flytja aflamark á milli skipa í eigu sömu útgerðar og skipta á jafnverðmætum aflaheimildum. Það er mat nefndarinnar að starfsemi kvótaþings hindri að viðskiptum með aflamark og viðskiptum með afla verði blandað saman en þetta hefur verið eitt af megin ágreiningsefnunum í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Með starfsemi kvótaþings yrðu öll viðskipti með aflamark sýnilegri og upplýsingar um verðmæti slíkra viðskipta lægju fyrir.

Loks leggur nefndin til að ákvæðum gildandi fiskveiðistjórnunarlaga varðandi veiðiskyldu verði breytt. Leggur nefndin til að veiðiskylda fiskiskipa verði 50% af árlegum aflaheimildum í stað 50% fyrir annað hvert ár. Veiði skip minna fellur veiðileyfi og aflahlutdeild þess niður. Með þessri breytingu yrði betur tryggt að aflaheimildir færist til þeirra skipa sem stunda reglubundnar veiðar án þess þó að möguleikum til hagræðingar í útgerð sé stefnt í hættu.

Tillögur nefndarinnar eru útfærðar í drögum að þremur lagafrumvörpum sem fylgdu skýrslu nefndarinnar. Auk þess fylgja skýrslu nefndarinnar tvær greinargerðir sem unnar voru af Þjóðhagsstofnun. Önnur fjallar um efnahagsleg og viðskiptaleg áhrif af starfsemi kvótaþings. Hin fjallar um viðskipti með aflamark á síðasta fiskveiðiári.

Sjávarútvegsráðuneytið
4. mars 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum