Hoppa yfir valmynd
12. mars 1998 Matvælaráðuneytið

Mannaflaþörf/sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr.3/1998




Í ársbyrjun 1996 kom út skýrsla á vegum Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis um mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda 1996-2002. Stóriðjuframkvæmdum og tengdum framkvæmdum í orkumálum fylgja mikil umsvif sem hafa áhrif á atvinnulíf og vinnumarkað. Því er mikilvægt að undirbúa slíkar framkvæmdir vel og treysta þannig samkeppnisstöðu innlends atvinnulífs.
Mannaflaáætlunin í framangreindri skýrslu hefur þegar sannað gildi sitt. Forsendur hafa hinsvegar nokkuð breyst. Því var nú talið tímabært að endursemja þessar áætlanir, miðað við þá kosti sem nú eru taldir líklegir á tímabilinu 1998-2005. Í október 1997 skipaði því iðnaðar- og viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson, starfshóp til að endurmeta fyrri áætlanir. Í því starfi skyldi eftirfarandi einkum lagt til grundvallar:
    • Árlega mannaflaþörf vegna umræddra verkefna.
    • Þá þekkingu og hæfni sem verkefnin krefjast og tímasetningu þeirra.
    • Hvort viðkomandi þekkingar- og hæfniskröfur séu almennt fyrir hendi og hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum, t.d. átaki í starfsmenntun.
Megintilgangurinn var að varpa ljósi á hve miklar og hvers eðlis áætlaðar framkvæmdir við iðjuver og tilheyrandi virkjanir gætu orðið og búa íslensk fyrirtæki betur undir að takast á við þessi verkefni og gera þau þannig betur samkeppnisfær. Þannig mætti auka hlutdeild þeirra í þessum framkvæmdum.
Ný skýrsla hefur nú verið unnin af starfshópnum, en í honum áttu sæti:
Baldur Pétursson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, Andrés Svanbjörnsson, Markaðsskrifstofu Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis, Ingólfur Sverrisson, Samtökum iðnaðarins og Örn Friðriksson, Samiðn, sambandi iðnfélaga. Með hópnum störfuðu einnig, Runólfur Maack og Kristinn Ingason frá Verkfræðistofu VGK.
Niðurstöður eru í meginatriðum eftirfarandi:
    • Vinna þarf að því að jafna eftirspurn eftir mannafla á framkvæmdatímabilinu. Það yrði best gert með því að flýta framkvæmdum við álver og hefja þær árið 2002.
    • Vegna stóriðjuframkvæmda verður að halda áfram að huga að hæfniskröfum og starfsmenntun í tíma, einkum í málmiðnaði.
    • Tengja þarf útboðsstefnu hins opinbera markmiðum sem að er stefnt í því skyni að efla iðnþróun.
    • Áætlunargerð og umfjöllun sem þessi er mikilvægt hagstjórnartæki fyrir stjórnvöld á öllum sviðum framkvæmda.
    • Verði fleiri stóriðjukostir en fram koma í skýrslunni nýttir er hætta á þenslu á vinnumarkaði í lok tímabilsins. Unnt er að forðast hana með því að grípa til viðeigandi ráðstafana í tíma.
Ítrekað skal að í skýrslunni er ekki um að ræða áætlun um verkefni sem tekin hefur verið ákvörðun um, að undanskildum framkvæmdum við 60.000 tonna álver Norðuráls og er sviðsmyndin og áætlanir á grunni hennar því einungis dæmi um hugsanlega þróun.
Nánari upplýsingar veitir Baldur Pétursson, deildarstjóri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta