Hoppa yfir valmynd
16. mars 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 017, 16. mars 1998: Utanríkisráðherra í opinberri heimsókn í Belgíu.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________



Nr. 17.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra er í opinberri heimsókn í Belgíu dagana 16. og 17. mars. Í dag átti hann viðræður við starfsbróður sinn, Erik Derycke. Til umræðu voru tvíhliða samskipti landanna, ásamt samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Ræddu ráðherrarnir í því sambandi fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins og afstöðu íslenskra stjórnvalda til þeirrar þróunar og framkvæmd sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að stækka síldarkvóta Íslands eftir aðild Finnlands og Svíþjóðar að Evrópusambandinu hefði verið byggð á útflutningi til landanna á þeim tíma þegar síldarstofninn var í lágmarki. Eðlilegt væri að taka tillit til þess nú að síldarstofninn hefði eflst á undanförnum árum og útflutningur aukist í kjölfarið.

Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi þátttöku Íslands og Noregs í Schengensamstarfinu eftir að það hefur verið innlimað í Evrópusambandið. Belgía gegnir nú formennsku innan Schengenhópsins.

Ráðherrarnir ræddu einnig undirbúning formennsku Íslands í Evrópuráðinu á næsta ári, stækkun NATO, eftirmála Kyotoráðstefnunnar og sérstöðu Íslands í því sambandi, ásamt ástandinu í Bosníu. Þeir komu sér saman um að koma á fót reglulegum samráðsfundum embættismanna landanna tveggja um alþjóðasamstarf.

Utanríkisráðherra átti einnig fund með Johan van de Lanotte, innanríkisráðherra Belgíu og formanni framkvæmdanefndar Schengensamstarfsins. Fagnaði hann árangursríkri þátttöku Norðurlanda í samstarfinu og sagðist vilja leggja sitt af mörkum til þess að framhald gæti orðið þar á.

Á morgun heimsækir utanríkisráðherra belgíska þingið.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 16. mars 1998.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta