Hoppa yfir valmynd
20. mars 1998 Matvælaráðuneytið

500 framsæknustu fyrirtækin í Evrópu

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 4/1998




Sex íslensk fyrirtæki eru á lista yfir 500 framsæknustu fyrirtæki Evrópu á tímabilinu frá 1991-96. Þessi fyrirtæki eru stoðtækjaframleiðandinn Össur, flugfélagið Atlanta, Verslunarkeðjan Nóatún, útgerðarfyrirtækið Samherji, tölvufyrirtækið Tæknival og Vöruveltan, sem rekur 10-11 verslanirnar.

Samtökin "Europe's 500" sem stóðu að valinu kynntu listann í dag. Þetta er í annað sinn sem valið er á listann en eitt íslenskt fyrirtæki, stoðtækjafyrirtækið Össur, komst á listann þegar hann var valinn í fyrsta sinn árið 1995.

Valið er niðurstaða víðtæks samstarfsverkefnis fjölda aðila víðsvegar í Evrópu. Samstarfsaðilar "Europe's 500" hér á landi eru iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti ásamt Samtökum iðnaðarins og er það liður í áherslu þessara aðila á auknum alþjóðlegum verkefnum á sviði samkeppnishæfni. Viðskiptastofnun Háskóla Íslands hefur séð um framkvæmd verkefnisins fyrir þeirra hönd.

Markmið verkefnisins er að örva frumkvæði til fyrirtækjarekstrar og atvinnusköpunar og vekja áhuga á kraftmiklum, hraðvaxandi og atvinnuskapandi fyrirtækjum sem starfa við ólíkar aðstæður víðsvegar í Evrópu. Verkefnið byggir á styrk, hæfni og kunnáttu þeirra er standa að baki framsæknustu fyrirtækjum Evrópu.

Valið byggir á afar ströngum skilyrðum um vöxt og tilurð hans. Til að mynda er litið á veltu og starfsmannaaukningu og arðsemi og samsetningu hlutafjár.

Telja má að það sé til vitnis um gróskumikið atvinnulíf og framsækna frumkvöðla í íslensku efnahagslífi að á listanum séu sex íslensk fyrirtæki. Listinn var valinn úr hópi fimmtán þúsund fyrirtækja sem svo aftur var valinn úr milljónum fyrirtækja í allri Evrópu. Til samanburðar má geta þess að einungis komust fjögur norsk fyrirtæki inn á listann, þrettán írsk, fjórtán finnsk og sautján sænsk.


Reykjavík 20. mars 1998





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum