Hoppa yfir valmynd
1. apríl 1998 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Evrópsk viðurkenning fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms (European Label) - apríl 1998

European Label
Evrópsk viðurkenning fyrir nýbreytniverkefni

á sviði tungumálanáms


Sent m.a. öllum framhaldsskólum, skólaskrifstofum og samtökum kennara

Til þess að efla og auka tungumálanám í löndum Evrópusambandsins og vekja almennan áhuga á gildi tungumálakunnáttu, hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákveðið að veita viðurkenningu fyrir góð verkefni á sviði náms og kennslu í erlendum tungumálum. Lögð er áhersla á að verkefnin feli í sér nýbreytni sem aðrir geti lært af og að þau séu liður í símenntun einstaklingsins. Viðurkenningin nefnist "European Label" og er árlega veitt takmörkuðum fjölda verkefna í hverju þátttökulandi. Framkvæmdin er í höndum hvers þátttökulands.

Veiting viðurkenningar fyrir nýbreytnistarf á sviði tungumálanáms er í samræmi við stefnumörkun Hvítbókar Evrópusambandsins um menntamál (Teaching and Learning, Towards the Learning Society) þar sem áhersla er lögð á mikilvægi tungumálakunnáttu fyrir íbúa í löndum Evrópusambandsins. Í Hvítbókinni er m.a. færni í þremur tungumálum Evrópusambandslanda sett fram sem markmið. Evrópsku viðurkenningunni er ætlað að beina athyglinni að frumlegum og árangursríkum verkefnum í kennslu og námi erlendra tungumála og hvetja til þess að aðferðir sem þar er beitt nýtist sem flestum.

Menntamálaráðuneytið tekur þátt í þessu samstarfi og er gert ráð fyrir að unnt verði að veita viðurkenningu fyrir nýbreytniverkefni hér á landi í fyrsta skipti vorið 1999.

Í hverju þátttökulandi verður sett á fót dómnefnd sem metur umsóknir og veitir viðurkenninguna. Framkvæmdastjórn ESB mælir með að í dómnefnd hvers lands verði einn erlendur sérfræðingur, auk innlendra aðila. Sett hafa verið sameiginleg evrópsk viðmið, en þátttökulönd geta auk þess bætt við eigin viðmiðum. Eingöngu tungumál ríkja Evrópusambandsins koma til álita. Gert er ráð fyrir að undirbúningur verkefna sem sótt er um viðurkenningu fyrir sé a.m.k. á lokastigi, en almennt er þó gengið út frá því að framkvæmd þeirra sé hafin.

Evrópsk viðmið sem sett hafa verið fyrir veitingu viðurkenningar eru eftirfarandi:

  1. Verkefnið sé heildstætt, þ.e. að það beinist ekki að einum afmörkuðum þætti í námi eða kennslu heldur nái til allra þátta og feli í sér víðtæka þátttöku, nýtingu efnis og tengsl við nýja aðila.
  2. Verkefnið skapi "virðisauka" í hverju landi, bæði með því að auka gæði kennslu og náms og fjölda þeirra tungumála sem lögð er stund á.
  3. Verkefnin séu þátttakendum hvatning til tungumálanáms.
  4. Verkefnin feli í sér "Evrópuvíddina" (European dimension), þ.e. byggi á vitund um Evrópusambandið og tungumál innan þess og efli skilning á menningu viðkomandi landa.
  5. Verkefnin feli í sér nýjungar í tungumálakennslu sem unnt sé að yfirfæra á aðrar aðstæður, t.d. þegar um er að ræða nám í öðrum tungumálum eða aldurshópum.
Hér á landi verður bæði unnt að sækja um viðurkenningu fyrir verkefni á sviði tungumálakennslu innan opinbera skólakerfisins og utan þess, s.s. í námsflokkum, málaskólum og hjá fræðslusamtökum. Ekki hafa verið sett sérstök íslensk viðmið til viðbótar evrópsku viðmiðunum, en svo getur orðið síðar. Fyrir upphaf næsta skólaárs verður með auglýsingu nánar gerð grein fyrir framkvæmd á veitingu evrópsku viðurkenningarinnar hér á landi. Snemma árs 1999 verður síðan auglýst eftir umsóknum um evrópsku viðurkenninguna. Gert er ráð fyrir að árlega geti 1-3 íslensk verkefni hlotið viðurkenningu.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta