Hoppa yfir valmynd
3. apríl 1998 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Útskrift úr grunnskóla - apríl 1998

Útskrift úr grunnskóla


Sent skólastjórum grunnskóla og skólaskrifstofum


Hér með sendist sýnishorn af eyðublaði fyrir vitnisburð í lok 10. bekkjar sem jafnframt er vottorð um lok skyldunáms samanber 47. gr. laga nr 66/1995 um grunnskóla. Tekið skal fram að skólum er heimilt að nota eigin eyðublöð og skírteini ef fram koma sömu eða sambærilegar upplýsingar og á meðfylgjandi eyðublaði. Þeir sem kjósa að nota þau eyðublöð sem hér fylgja með geta pantað þau í síma 560 9567 (Erla, fyrir hádegi).

Vakin er athygli á bakhlið eyðublaðsins. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr 516/1996 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa, skulu einkunnir á samræmdum prófum vera í heilum og hálfum tölum á einkunnakvarðanum 1 - 10.

Í 15. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að skrá skuli vitnisburð, þ.e. skólaeinkunnir, í öllum námsgreinum sem nemandi lagði stund á í 10. bekk. Til samræmis t.d. vegna inntöku nemenda í framhaldsskóla, er nauðsynlegt að notaður sé sami einkunnakvarði við útskrift úr grunnskóla og telur menntamálaráðuneytið rétt að nota heilar og hálfar tölur á einkunnakvarðanum 1 - 10. Ef notuð eru önnur einkunnabil eða einkunnakvarði fyrir skólaeinkunnir, er nauðsynlegt að fram komi skýringar á einkunnum skólans.

Tekið skal fram að skólar eiga ekki að senda menntamálaráðuneytinu afrit af vitnisburðarblöðum eins og tíðkast hefur um langt árabil. Það er ekki talið samræmast upplýsingalögunum að ráðuneytið innkalli slíkar upplýsingar. Afrit af skírteinum frá fyrri árum sem ráðuneytið hefur í sinni vörslu, verða send Þjóðskjalasafni til varðveislu. Nokkuð er um það að fólk leiti til ráðuneytisins ef það hefur glatað skírteini sínu en þarf á því að halda t.d. vegna umsókna um nám eða atvinnu. Hér eftir verður ekki unnt að fá afrit í ráðuneytinu og er því brýnt fyrir grunnskólum að halda þessum gögnum vel til haga.


(apríl 1998)


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta