Hoppa yfir valmynd
22. apríl 1998 Dómsmálaráðuneytið

Setning sérstaks ríkislögreglustjóra til að kanna meðferð, vörslur og afhendingu fíkniefna hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík o.fl.

Fréttatilkynning


Með bréfi dags. 18. júlí 1997 fól dómsmálaráðuneytið ríkislögreglustjóra að gera úttekt á fíkniefnageymslu lögreglustjórans í Reykjavík. Tilefni úttektarinnar var beiðni lögreglustjóraembættisins í Reykjavík um athugun þar að lútandi. Í bréfi ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins dags. 23. mars 1998 er lýst niðurstöðu framangreindrar úttektar sem tók til tímabilsins 1981 til 1. júlí 1997. Þar kemur m.a. fram að um fjögur kíló fíkniefna vantar í fíkniefnageymslu lögreglunnar í Reykjavík miðað við fyrirliggjandi skráningu embættisins á haldlögðum efnum.
Í dag fól ráðuneytið ríkislögreglustjóra frekari athugun á þessum niðurstöðum úttektarinnar. Í bréfi til ráðuneytisins í dag lýsti Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri því yfir að hann teldi sig vanhæfan til frekari meðferðar málsins með vísan til 6. tölul. 1. mgr. 3.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í ljósi þess að hann var starfsmaður lögreglustjórans í Reykjavík 1. janúar til 30. júní 1997, á hluta þess tímabils sem úttektin tók til.
Af þessari ástæðu hefur ráðuneytið sett Ragnar H. Hall, hæstaréttarlögmann, ríkislögreglustjóra til þess að fara með eftirfarandi verkefni vegna málsins:
1. Að kanna meðferð, vörslur og afhendingu fíkniefna hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík á fyrrgreindu árabili.
2. Hvort starfsmenn eða yfirmenn embættisins hafi brotið gegn starfsfyrirmælum eða starfsskyldum sínum í opinberu starfi.
3. Hvort grunur leiki á því að starfsmenn embættisins hafi framið refsiverð brot við störf sem tilkynna beri ríkissaksóknara, sbr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.
4. Verði ríkissaksóknara tilkynnt um ætlað brot og ákveði hann að málið sæti opinberri rannsókn, er Ragnari falið að annast slíka rannsókn undir stjórn ríkissaksóknara, sbr. 35. gr. lögreglulaga.
Jafnframt hefur ráðuneytið í dag farið þess á leit við ríkisendurskoðun að áður umbeðinni stjórnsýsluúttekt hennar á embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði flýtt eins og unnt er.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 25. mars 1998.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum