Nr. 033, 27. apríl 1998:Utanríkisráðherra hittir Sergio Marchi, utanríkisviðskiptaráðherra Kanada.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 33
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti í dag fund með hr. Sergio Marchi utanríkisviðskiptaráðherra Kanada. Ræddu þeir viðskipti Íslands og Kanada og um undirbúning fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna og Kanada. Fundurinn var haldinn í París en ráðherrarnir sitja þar ársfund OECD.
Á fundinum bauð Halldór Ásgrímsson hr. Marchi að heimsækja Ísland 3. júní nk. í tengslum við ráðherrafund EFTA-ríkjanna sem haldinn verður í Reykjavík þann dag. Utanríkisráðherra minnti á hið sérstaka samband Íslands og Kanada og lýsti yfir ánægju sinni með ört vaxandi viðskipti og samgöngur á milli landanna. Hann lýsti vaxandi áhuga íslenskra fyrirtækja á að fjárfesta í Kanada sem væri mjög ánægjuleg þróun. Hann áréttaði þó að Kanadamenn þyrftu að liðka fyrir um veitingu atvinnu- og búsetuleyfa í Kanada fyrir íslenska starfsmenn viðkomandi fyrirtækja.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi fyrirhugaðra fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna og Kanada, en fyrsti sameiginlegi viðræðufundurinn verður haldinn í Reykjavík 26. - 27. maí nk.
Hr. Marchi lýsti því yfir að fyrir Kanadamenn væru viðskiptin við EFTA-ríkin afar áhugaverð og því væru fríverslunarviðræðurnar eitt mikilvægasta verkefni kanadískra stjórnvalda á viðskiptasviðinu um þessar mundir. Hann lýsti áhuga Kanadamanna á því að væntanlegur fríverslunarsamningur yrði viðameiri og næði til fleiri atriða á sviði verslunar og viðskipta en hefðbundnir fríverslunarsamningar. Loks áréttaði hann áhuga kanadískra stjórnvalda á að stofnað yrði sérstakt verslunarráð EFTA-ríkjanna og Kanada.
Ráðherrarnir voru sammála um að fríverslunarviðræðunum þyrfti að hraða eftir föngum og ætti að stefna að því að ljúka þeim um eða skömmu eftir næstu áramót.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 27. apríl 1998.