Hoppa yfir valmynd
7. maí 1998 Dómsmálaráðuneytið

Skýrslur heimilisofbeldisnefnda

Skýrslur heimilisofbeldisnefnda


    Í marsmánuði 1997 mælti dómsmálaráðherra á Alþingi fyrir skýrslu um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Í framhaldi af því var ákveðið að skipa þrjár nefndir, til að huga að úrbótum á þessu sviði. Hlutverk fyrstu nefndarinnar var að huga að meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu á rannsóknarstigi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur í því efni, þar á meðal um breytingar á refis- og réttarfarslöggjöf. Önnur nefndin skyldi huga að meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur í því efni, þ. á m. um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf. Þriðja nefndin skyldi huga að nauðsynlegum breytingum á löggjöf almennt til að sporna við heimilisofbeldi, huga að því hvernig unnt væri að efla starf félagasamtaka er sinna forvörnum og veita hjálp á þessu sviði, gera tillögur um forvarnaraðgerðir, um hjálparúrræði fyrir þolendur og meðferðarúrræði fyrir gerendur. Var sú nefnd m.a. skipuð fulltrúum frá menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti auk dómsmálaráðuneytis.
    Nefndirnar hafa nú lokið störfum og skilað skýrslum, sem dómsmálaráðherra hefur sent Alþingi. Tillögur nefndanna verða nú teknar til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu svo og hjá réttarfarsnefnd og refsiréttarnefnd. Þá hefur dómsmálaráðherra beint því til ráðuneyta félagsmála-, menntamála- og heilbrigðismála að þær tillögur nefndanna sem snúa að verkefnum þessara ráðuneyta verði teknar til skoðunar í ráðuneytunum og afstaða mótuð til þess hvernig taka beri á tillögum nefndanna. Unnt er að nálgast skýrslur nefndanna í dómsmálaráðuneytinu, en helstu niðurstöður þeirra eru eftirfarandi:
    I. Niðurstöður nefndar um meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu:
    Nefndin leggur til að gefnar verði út leiðbeiningar til lögreglustjóra um hvernig haga skuli skráningu heimilisofbeldismála í dagbók og málaskrá, hvernig haga skuli rannsókn mála vegna heimilisofbeldis þar sem lögð er áhersla á ýmis atriði sem nánar er lýst í skýrslu nefndarinnar. Nefndin leggur til að brotaþolum verði leiðbeint af lögreglu um réttindi brotaþola og hjálparúrræði sem honum standa til boða o.fl., og að ríkislögreglustjóri gefi út reglur um hvernig lögregla skuli kynna brotaþola bótarétta. Nefndin leggur til að lögfestar verði reglur um nálgunarbann og um rétt brotaþola til að fá skipaðan löglærðan talsmann. Þá leggur nefndin til að tekin verði í almenn hegningarlög ákvæði um vitnavernd og að ríkislögreglustjóri gefi út almennar leiðbeiningar til lögreglustjóra um hvers beri að gæta þegar lögregluáminning er veitt.

    II. Niðurstöður nefndar um meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu:
    Nefndin leggur til að í lög um meðferð opinberra mála verði tekið ákvæði um rétt brotaþola til að fá skipaðan löglærðan talsmann. Þá gerir nefndin tillögur um breyttar ákærureglur. Nefndin telur t.a.m. að við lagasetningu beri að varast að velta yfir á þolendur refsiverðrar háttsemi ábyrgð á því að þeir sem brot fremji sæti ákæru. Leggur nefndin til að ákæruregla 2. mgr. 217. gr. alm. hgl. verði felld úr lögum. Nefndin gerir að umtalsefni atriði varðandi refsiákvörðun, og telur að taka verði til skoðunar réttmæti tiltekinna refsibrottfallsheimilda. Loks leggur nefndin til að lögfestar verði reglur um nálgunarbann og er í skýrslu hennar að finna ítarlegar röksemdir fyrir slíku úrræði.

    III. Niðurstöður nefndar um forvarnir gegn heimilisofbeldi, hjálparúrræði fyrir þolendur og meðferðarúrræði fyrir gerendur:
    Nefndin leggur til að atriði í barnalögum og hjúskaparlögum varðandi umgengnisrétt, sameiginlega forsjá og sáttaumleitanir verði tekin til skoðunar, þar sem ýmsir aðilar hafi bent á að fyrirkomulag samkvæmt gildandi lögum geti viðhaldið ofbeldi eftir skilnað eða sambúðarslit. Lagt er til að auknar skyldur verði lagðar á sveitarfélög varðandi mál um heimilisofbeldi og leggur nefndin til að nefnd félagsmálaráðherra, sem ætlað er að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, taki til athugunar möguleika á að mælt verði í lögum fyrir um sérstaka aðgerðarskyldu sveitarfélaga fái þau vitneskju eða grun um heimilisofbeldi og um samstarf félagsmálayfirvalda og annarra stofnana sem koma að málefnum heimilisofbeldis. Varðandi fræðslu og forvarnaraðgerðir telur nefndin mikilsvert að hugað verði að almennri kynningu á og fræðslu um heimilisofbeldi, svo og kynningu á úrræðum fyrir brotaþola og gerendur. Unnið verði að forvörnum með markvissri fræðslu um ofbeldi, orsakir þess, umfang og afleiðingar. Hugað verði að slíkri fræðslu við endurskoðun aðalnámsskrár grunnskóla. Tryggt verði að fræðsla um orsakir og afleiðingar heimilisofbeldis verði hluti af grunnmenntun starfsstétta sem sinni frekar slíkum málum en aðrar. Þá leggur nefndin til að gripið verði til áróðursherferðar til að fræða almenning um heimilisofbeldi o.fl. Varðandi hjálparúrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis má nefna að nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að faghópar sem þolendur heimilisofbeldis leiti til, hljóti viðeigandi starfsþjálfun. Nefndin telur mikilvægt að starf félagasamtaka í þágu heimilisofbeldis, einkum á vegum Kvennaathvarfsins, Kvennaráðgjafarinnar og Stígamóta verði treyst með gerð þjónustusamninga og að fjárframlög til þeirra frá ríki og sveitarfélögum verði ekki skert. Nefndin leggur til að komið verði á sérhæfðri móttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis, sem starfrækt verði samhliða neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis og í nánum tengslum við félagasamtök á þessum vettvangi. Nefndin telur sérstakra aðgerða þörf í málefnum nýbúa hvað þetta varðar og fleiri atriði mætti nefna úr tillögum nefndarinnar. Hvað meðferðarúrræði fyrir gerendur varðar telur nefndin mikilvægt að gerendum standi til boða úrræði. Vísar nefndin til tilraunaverkefnis sem nýlega hefur verið komið í framkvæmd, og væntir þess að stjórnvöld taki tillit til niðurstaðna þess verkefnis við ákvörðun og framkvæmd aðgerða gegn heimilisofbeldi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum