Hoppa yfir valmynd
8. maí 1998 Matvælaráðuneytið

Áhugi barna og unglinga á sjávarútvegi á ári hafsins. 08.05.98

Hvað er gert til að auka áhuga
barna og unglinga á hafinu og sjávarútvegi
á ári hafsins?



Því hefur verið haldið fram að lítið sem ekkert námsefni sé til fyrir grunnskólanemendur um íslenskan sjávarútveg. Þetta er ekki rétt, en það hefur hins vegar ekki alls staðar verið mikið nýtt. Í dag kom út hjá Námsgagnastofnun rit með hugmyndum fyrir kennara um viðfangsefni í tilefni af ári hafsins 1998. Það á sér fyrirmynd í kennsluleiðbeiningum sem unnar voru fyrir kennara árið 1994 þegar minnst var 50 ára afmælis lýðveldisins. Sú útgáfa þótti takast mjög vel og nýtast vel í skólastarfi. Í hugmyndaheftinu sem nú er gefið út, er í fimm köflum fjallað um hafið, veiðar, vinnslu, viðskipti og sambúð manns og sjávar. Í hverjum kafla er bent á margvíslegar heimildir; bækur, myndbönd og vefsíður og vinnuaðferðir fyrir hvert aldursstig. Þarna er tekin saman mikill fróðleikur fyrir kennara og nemendur sem vilja kynna sér íslenskan sjávarútveg og bent á fjölda áhugaverðra verkefna, hvort sem unnið er í þemavinnu, eða að smærri verkefnum. Ritið sem fylgir hér með er unnið í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið sem styrkti útgáfuna. Höfundar ritsins eru Guðbjörg Pálsdóttir og Þórdís Sigurðardóttir en upplýsingar um og aðra aðstandendur þess er að finna innan á kápu ritsins. Ritstjórarnir Árný Elíasdóttir og Hafdís Finnbogadóttir veita fúslega frekari upplýsinga sé þeirra óskað.

Þann 15. apríl sl. var greint frá úrslitum samkeppni um myndspjald í tilefni af ári hafsins undir kjörorðinu: Hafið, líf á okkar ábyrgð. Spjaldið vekur athygli og hvarvetna þar sem það er sýnt, hefur það vakið umræður um tengsl manns og sjávar. Má ætla að svo verði einnig í skólum, en myndspjaldið hefur verið sent í alla grunnskóla landsins. Þá á að dreifa póstkorti með sömu mynd endurgjaldslaust, og er vonast til að á ári hafsins sendi skólabörn, meðal annarra, vinabekkjum og skólum á Norðurlöndum kveðju með kortinu.

Nýta á hafrannsóknaskipið Dröfn sem skólaskip hluta úr ári. Reksturinn er í tilraunaskyni til tveggja ára. Á næstu dögum fá allir nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskóla kynningarbækling um skólaskipið. Þar eru nemendum meðal annars kynntar stuttar skoðunarferðir með skipinu og dagsferðir fyrir þá sem velja sjóvinnu sem valgrein í þessum bekkjum.

Sjávarútvegsráðuneytið hafði forgöngu um að ráðast í þessi verkefni.


Sjávarútvegsráðuneytið
8. maí 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum