20. maí 1998:Undirskrift nýs loðnusamnings milli Íslands, Grænlands og Noregs
Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu
Undanfarna þrjá daga hafa staðið yfir viðræður milli Íslands, Noregs og Grænlands um stjórn veiða úr loðnustofninum.
Í dag náðust samningar milli aðila um stjórn veiða og skiptingu afla úr loðnustofninum á svæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen.
Gerður var einn heildarsamningur milli aðila um skiptingu stofnsins og fyrirkomulag kvótaúthlutunar. Í honum felst að hlutur Íslands eykst úr 78% í 81%, hlutur Grænlands er 11% eða óbreyttur, en hlutur Noregs minnkar úr 11% í 8%.
Jafnhliða voru gerðir tvíhliða samningar um aðgang að lögsögum landanna, en áður var kveðið á um þau atriði í heildarsamningi um stjórnun veiða úr loðnustofninum.
Í samningi Íslands og Noregs er kveðið á um að norsk skip geti veitt allt að 35% af heildarkvóta sínum í íslenskri lögsögu, norðan 64°30}N eða fyrir 15. febrúar. Hliðstætt ákvæði er um veiðar íslenskra skipa í lögsögu Jan Mayen. Samkvæmt samningi þeim sem féll úr gildi í vor var Norðmönnum heimilt að veiða 60% af aflaheimildum sínum innan fiskveiðilandhelgi Íslands.
Í samningi Íslands og Grænlands er kveðið á um að íslensk skip geti stundað loðnuveiðar í lögsögu Grænlands. Jafnframt er grænlenskum skipum heimilaðar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með þeirri takmörkun að þeim er aðeins heimilt að veiða 23.000 lestir eftir 15. febrúar og sunnan 64°30}N. Þá var gert gagnkvæmt samkomulag við Grænlendinga um veiðar á úthafskarfa. Samkvæmt því er hvorum aðila um sig heimilt að veiða 50% af úthlutuðum veiðiheimildum sínum í úthafskarfa innan fiskveiðilandhelgi hins aðilans.
Samningar þessir taka gildi fyrir upphaf loðnavertíðar þeirrar sem hefst 20. júni nk. og gilda til 30. apríl 2001.