Samningur við Sjúkrahús Reykjavíkur um læknisþjónustu
Dómsmálaráðuneytið hefur undirritað samning við Sjúkrahús Reykjavíkur um læknisþjónustu, vegna þyrluvaktar o.fl.
Er í fyrsta lagi um að ræða að Sjúkrahús Reykjavíkur tekur að sér að annast umsjón og stjórn þyrluvaktar og tryggja sólarhringsvakt sérþjálfaðra lækna fyrir sjúkra- og björgunarflug fyrir Landhelgisgæslu Íslands.
Í öðru lagi mun Sjúkrahús Reykjavíkur skipuleggja og annast símaráðgjöf í bráðatilfellum fyrir sjófarendur og flugfarþega á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Þá mun það einnig skipuleggja fjarlækningar (telemedicine), en á næstu dögum mun samgönguráðuneytið setja reglugerð um heilbrigðisþjónustu, lyf og læknisáhöld um borð í íslenskum skipum. Byggir reglugerðin á tilskipun ráðsins 92/29/ESB um lágmarkskröfur um öryggi og hollustu til að bæta læknismeðferð um borð í skipum. Sú skylda er lögð á ríki ESB og EES að velja eina eða fleiri læknamiðstöðvar til þess að veita sjófarendum ókeypis læknisráðgjöf með hjálp fjarskipta og eins að tryggja að þeir læknar sem veita þjónustuna hafi hlotið þjálfun við hinar sérstöku aðstæður sem eru um borð í skipum.
Í þriðja lagi mun Sjúkrahús Reykjavíkur annast læknisfræðilega forsjá (medical direction) fyrir starfsemi Neyðarlínunnar. Fram til 31. desember 1998 skal unnið að skipulagi þessarar starfsemi.
Samningurinn tekur gildi 1. júní 1998 og skal hann endurskoðaður eigi síðar en að ári liðnu.