Nr. 046, 25. maí 1998: Fjórða aðildaríkjaþing samningsins um líffræðilega fjölbreytni
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 46
Fjórða aðildarríkjaþing samningsins um líffræðilega fjölbreytni var haldið í Bratislava í Slóvakíu 4.-15. maí sl. Fulltrúar um 180 ríkja tóku þátt í fundinum, ásamt fulltrúum fjölda alþjóðastofnana og samtaka.
Samningurinn var lagður fram til undirritunar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró 1992 og var hann þá undirritaður af Íslands hálfu. Ísland fullgilti samninginn í september 1994 og tók hann gildi að því er Ísland varðar í desember sama ár. Markmið hans er þríþætt: Að vernda líffræðilega fjölbreytni, tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar, sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda, svo og aðgangi að þeim. Skrifstofa samningsins er í Montreal í Kanada.
Helstu málefni, sem rædd voru á þinginu, voru vernd og sjálfbær nýting líffræðilegrar fjölbreytni við strendur og í hafinu, vernd og nýting skóga, lífríki í fersku vatni og erfðabreyttar lífverur. Auk þess var rætt um upplýsingamiðlun og vísindalega samvinnu, mikilvægi flokkunarfræði, erfðaauðlindir, fjármál og framkvæmd samningsins.
Á þinginu var samþykkt heildstæð aðgerðaáætlun til þriggja ára um vernd og nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni á strand- og hafsvæðum. Aðgerðaáætlunin er sú fyrsta sem samþykkt er á vegum samningsins. Áætlunin skiptist í fimm kafla, sem fjalla um (1) samþætta stjórnun á strand- og hafsvæðum, (2) lifandi auðlindir, (3) verndarsvæði, (4) framandi tegundir og (5) sjávareldi.
Fulltrúar Íslands tóku virkan þátt í umræðum um áætlunina og lögðu m.a. áherslu á að við framkvæmd hennar yrði byggt á starfi í aðildarríkjunum, hjá svæðasamtökum og í alþjóðastofnunum á þessu sviði. Ákveðið var að skrifstofa samningsins byði alþjóðasamtökum og svæðasamtökum að annast ákveðin verkefni og að samræma vinnu sína áætluninni, þar sem við á.
Á þinginu var enn fremur fjallað sérstaklega um aðgang að erfðaauðlindum og skiptingu hagnaðar af nýtingu þeirra. Samþykkt var að setja á fót nefnd til að leggja drög að samræmdum reglum, sem lögð yrðu fyrir næsta aðildarríkjaþing. Í umræðunum lögðu fulltrúar Íslands áherslu á rétt ríkja til þess að vernda og nýta erfðaauðlindir sínar, svo sem örverur á jarðhitasvæðum, og til hlutdeildar í hagnaði af nýtingu þeirra.
Þá var samþykkt sérstök ályktun um mikilvægi flokkunarfræði, þar sem þeim tilmælum er beint til aðildarríkja og alþjóðastofnana að taka sérstakt tillit til flokkunarfræði í starfs- og rannsóknaáætlunum.
Samþykkt var rammaáætlun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu í fersku vatni, sem lögð verður til grundvallar í samræmdri vinnu á þessu sviði.
Undanfarið hefur verið unnið að gerð sérstakrar bókunar við samninginn um erfðabreyttar lífverur. Fyrirhugað er að leggja bókunina fyrir þing aðildarríkja í febrúar 1999 til samþykktar.
Umhverfisráðuneytið sér um framkvæmd samningsins hér á landi. Sett hefur verið á fót samráðsnefnd umhverfisráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, sjávarútvegsráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins til þess að vinna að málefnum samningsins.
Sendinefnd Íslands á þinginu skipuðu Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem var formaður sendinefndarinnar, Guðni Bragason, utanríkisráðuneytinu, Kristín Haraldsdóttir, sjávarútvegsráðuneytinu og Sigurður Á. Þráinsson, umhverfisráðuneytinu.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 25. maí 1998.