Hoppa yfir valmynd
26. maí 1998 Matvælaráðuneytið

Framsæknustu frumkvöðlar Íslands og Evrópu

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Samtök iðnaðarins
Nr. 8/1998





Fyrirtæki íslenskra frumkvöðla skara fram úr

Íslensk fyrirtæki á lista yfir 500 framsæknustu fyrirtæki Evrópu vaxa umfram önnur á sama lista. Heildarfjölgun starfa í íslensku fyrirtækjunum var að meðaltali 34% á ári á tímabilinu 1991-1996 samanborið við 16% meðaltal fyrir öll fyrirtækin 500 á listanum. Íslensku fyrirtækin eru í næstefsta sæti hvað þetta varðar, efst eru þau finnsku.Veltuaukning í íslenskum fyrirtækjum var einnig framúrskarandi; 34% að meðaltali á ári samanborið við 23% meðaltal fyrir öll fyrirtækin á listanum.
Inn á lista yfir 500 framsæknustu fyrirtæki Evrópu hefur nú verið valið í annað sinn. Eitt íslenskt fyrirtæki, stoðtækjafyrirtækið Össur, komst á listann þegar á hann var valið í fyrsta sinn árið 1995. Nú er Össur aftur á listanum en auk þess fimm önnur íslensk fyrirtæki: flugfélagið Atlanta, verslunarkeðjan Nóatún, útgerðarfyrirtækið Samherji, tölvufyrirtækið Tæknival og Vöruveltan, sem rekur 10-11 verslanirnar.
Valið lýtur afar ströngum skilyrðum um vöxt og tilurð hans, s.s. eignaraðild frumkvöðuls, sjálfstæði, veltuaukningu, arðsemi, stærð og aldur fyrirtækisins. Telja má að það sé til vitnis um gróskumikið atvinnulíf og framsækna frumkvöðla í íslensku efnahagslífi að á listanum skulu vera svo mörg íslensk fyrirtæki. Á listann var valið úr hópi fimmtán þúsund fyrirtækja sem voru svo aftur valin úr milljónum fyrirtækja í allri Evrópu. Til samanburðar má geta þess að einungis fjögur norsk fyrirtæki komust á listann, þrettán írsk, fjórtán finnsk og sautján sænsk, en íslenska hagkerfið er einungis um 3% - 11% af stærð þessara hagkerfa.
Listinn er niðurstaða víðtæks samstarfsverkefnis fjölda aðila víðs vegar í Evrópu. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið ásamt Samtökum iðnaðarins standa að listanum hér á landi. Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands sá um ýmsa þætti verkefnisins fyrir þeirra hönd.
Að morgni fimmtudagsins 28. maí næstkomandi verða frumkvöðlar áðurnefndra fyrirtækja heiðraðir á fundi sem aðstandendur verkefnisins hér á landi standa að. Auk þess verður á fundinum fjallað um nýja úttekt á helstu einkennum framsæknustu fyrirtækja og frumkvöðla Íslands og Evrópu. Kemur þar m.a. fram að af íslensku frumkvöðlunum hafa 73% lokið háskólanámi samanborið við 68% þeirra evrópsku og samkeppnisstyrkur íslensku fyrirtækjanna byggist einkum á mannauði. Frumkvöðlar eru á öllum aldri - hér á landi eru þeir að meðaltali 52 ára í samanburði við 47 ára í Evrópu. Frumkvöðlar og fyrirtæki þeirra finnast í öllum atvinnugreinum.

Reykjavík 26. maí 1998.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta