Nr. 049, 28. maí 1998: Íslensk stjórnvöld harma kjarnasprengingar Pakistana.
Íslensk stjórnvöld harma mjög, að Pakistanar sprengdu fimm kjarnasprengjur í tilraunaskyni í dag. Eru Pakistanar hvattir til að virða ákvæði samningsins um algert bann við kjarnasprengingum í tilraunaskyni og samningsins um að dreifa ekki kjarnavopnum og gerast aðilar að samningunum sem fyrst.
Kjarnasprengingar Pakistana og Indverja fyrr í maímánuði eru íslenskum stjórnvöldum mikið áhyggjuefni og leiða til óöruggs ástands í Suður-Asíu. Þær geta leitt til kjarnavopnakapphlaups og haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Kjarnasprengingar Pakistana og Indverja brjóta ótvírætt í bága við alþjóðlegar viðmiðanir og hamla gegn alþjóðlegri viðleitni til að útrýma kjarnavopnum og koma í veg fyrir dreifingu þeirra.
Íslensk stjórnvöld munu áfram taka þátt í samráði um þróun þessara mála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og á meðal Norðurlandanna.